Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

Virðismat kvennastarfa.

[11:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Mér finnst nú ástæða til að byrja á að nefna aðeins árangurinn af því sem við höfum verið að gera. Alveg sama hvert litið er þá hefur leiðréttur og óleiðréttur launamunur dregist saman á árunum 2010–2019. Leiðréttur launamunur fór úr 6,2% í 4,3% og óleiðréttur úr 17,5% í 13,9%, væntanlega vegna jafnlaunavottunar sem kannanir sýna að mælist mjög vel fyrir hjá þeim sem stjórna bæði fyrirtækjum og stofnunum. Hins vegar þegar innleiðingunni lýkur munum við að sjálfsögðu gera stóra rannsókn og meta hvernig til hefur tekist.

Þriðja vaktin hefur verið rædd. Við erum að fara að ráðast í tímarannsókn vegna þess að við höfum ekki gert það af einhverjum ástæðum sem t.d. önnur Norðurlönd hafa gert, þ.e. að mæla hvernig kynin nýta tíma sinn með ólíkum hætti þegar þau eru ekki í vinnunni. Ég þykist vita hvað kemur út úr því en það verður áhugavert að sjá. Mig grunar að það séu fremur konurnar sem skutla í afmæli og tómstundir og sjá um ýmislegt sem er ekki endilega það sem við köllum hin hefðbundnu heimilisstörf.

Hér er rætt um að útvistun starfa skili stórkostlegum árangri í þessum málum. Ég vil minna á það að launamunur hjá ríki og sveitarfélögum er minni en á almennum markaði og ég held að það væri nú bara áhugavert rannsóknarefni að skoða hvernig farið hefur með launaþróun t.d. hjá þeim kvennastéttum þar sem störfum hefur verið útvistað, t.d. í ræstingum. Ég er ekki viss um að það komi neitt sérstaklega vel út. En það er eitthvað sem þyrfti kannski að rannsaka sérstaklega. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt að heimsfaraldurinn dró fram verðmæti umönnunarstarfa. Hann dró líka fram verðmæti kvennastarfa í skólakerfinu. Hér var tekin ákvörðun um að halda skólum opnum til að tryggja sem mest órofa samfellu í lífi barna en líka vegna þess að það er nokkuð ljóst hvort foreldrið hefði tekið ábyrgðina á því ef börnin hefðu verið heima. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta var rétt ákvörðun þegar við lítum til barna á Íslandi miðað við þau börn sem voru jafnvel heima hjá sér mánuðum saman. En þetta var álag þannig að að sjálfsögðu þarf að taka þetta með í reikninginn við undirbúning næstu kjarasamninga, að skoða nákvæmlega framlag þessara mikilvægu stétta.