Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

133. mál
[14:12]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og árétta að við erum öll að vinna í sömu átt. Það er löngu orðið tímabært að við stöndum við stóru orðin þegar kemur að aðstöðu keppnis- og afreksíþróttafólksins okkar og ég held að það sé við hæfi að vitna í orð formanns Körfuknattleikssambands Íslands þegar hann segir í fjölmiðlum, í tilefni vonbrigða vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til nýrrar íþróttahallar: Sýnið nú íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. En mig langar að gera athugasemd við orð hv. þingmanns þegar hann talar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum sem tillögu sem fyrir liggur. Það er ekki svo. Þetta er samþykkt. Ráðherra er með boltann, ráðherra er, ef hann fer eftir vilja Alþingis, að vinna málið. Með fullri virðingu fyrir góðri þingsályktunartillögu þá er það nú einfaldlega þannig að það er einfaldara að koma þessu inn í þá stefnu heldur en að taka heilt þingmál í gegnum kerfið aftur, þá væntanlega með einhvers konar annarri tímasetningu. Þetta er tímasett hérna 2023. Það er ómögulegt að vinna heildstæða stefnu um afreksíþróttafólk án þess að þetta mikilvæga mál sé þar inni. Þannig að aftur verð ég eiginlega að lýsa því yfir að ég er undrandi á því að þetta skuli ekki vera unnið saman, að það skuli ekki vera samfella í þessu. Jafnframt verð ég að lýsa mig ósammála því að þetta sé rétta leiðin til að koma þessu mikilvæga máli um skattahvata á framfæri. Þannig að ég hef í sjálfu sér enga spurningu en þó, gjarnan þessa: Telur hv. þingmaður ekki að þetta eigi heima í heildarstefnu fyrir afreksíþróttafólk?