Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

vernd íslenskra auðlinda.

[14:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þakka honum liðið ár sem hefur verið viðburðaríkt en líka fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er stórmál sem hv. þingmaður setur á dagskrá. Við höfum tekið ákveðin skref á undanförnum árum og nærtækast er að rifja upp það frumvarp sem ég lagði fram um takmarkanir á samþjöppun á eignarhaldi á landi til að koma í veg fyrir að tilteknir aðilar, hvort sem um væri að ræða innlenda eða erlenda aðila, gætu sölsað undir sig land út í hið óendanlega. Þetta mál mætti nú töluverðri andstöðu hér í þinginu, m.a. vegna þess að það var talið stangast á við reglur fjórfrelsisins og EES, en eigi að síður hlaut það brautargengi meiri hlutans og enn hefur ekki verið látið reyna á þetta fyrir dómstólum. Ég gæti þó átt von á því. Það vakti athygli mína þegar stórtækur landeigandi tilkynnti að hann myndi ekki ráðast í frekari landakaup og ekki láta á þetta reyna fyrir dómstólum, sem mér þóttu góð tíðindi því það er algjört lykilatriði fyrir fullveldi þessarar þjóðar að auðlindirnar séu undir innlendri stjórn. Ég gerði það að umtalsefni í stefnuræðu hversu mikilvægt það er að eitt helsta orkufyrirtækið sem og flutningsfyrirtækið sé í eigu almennings, að það verði ekki selt. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Meðan ekki næst samstaða á Alþingi um að festa sameign þjóðarinnar á auðlindum þurfum við hins vegar að hafa þau sjónarmið að leiðarljósi þegar við erum að ræða mál sem eru mjög mikilvæg eins og t.d. framtíð vindorku á Íslandi. Hvernig ætlum við að standa að þeim málum? Er allt landið undir? Ég segi nei. Skiptir ekki máli að þau sem ætla sér að hagnast á slíku greiði af því eðlilegt gjald? Ég segi já við því. Við þurfum, ég get tekið undir það með hv. þingmanni, að marka okkur stefnu. Þetta eru mikilvægustu málin sem við stöndum frammi fyrir á þessari öld, þ.e. auðlindamálin og hvernig við ætlum að halda á þeim. (Forseti hringir.) Þau snúast ekki bara um fisk eins og ég hef svo margoft sagt, þau snúast um orku, land, vatn og jú, auðvitað líka fisk.