Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

aðgerðir vegna fjölgunar umsækjenda um alþjóðlega vernd.

[14:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Embætti ríkislögreglustjóra gaf út fréttatilkynningu þann 16. september síðastliðinn um að embættið hefði hækkað viðbúnaðarstig á landamærum á hættustig vegna yfirálags til þess að tryggja örugga móttöku á þeim mikla fjölda fólks sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Þar segir enn fremur:

„Embættið reiknar með að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fjölga hlutfallslega meira á síðustu mánuðum ársins en á sama tíma eru búsetuúrræði þegar nánast fullnýtt. Hækkun á viðbúnaðarstigi er liður í að bregðast við þessari stöðu. […] Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Vinnumálastofnun þá eru búsetuúrræði sem nýtt eru sem skammtímaúrræði að nálgast fulla nýtingu. Langtímaúrræði sem rekin eru af Fjölmenningarsetri og sveitarfélögum eru jafnframt nánast fullnýtt.

Þennan dag, þegar lýst var yfir hættuástandi á landamærum, var staðan þannig að 2.718 einstaklingar höfðu leitað eftir að fá stöðu flóttamanns hér á landi. Þar af voru 1.646 einstaklingar frá Úkraínu. En á þeim tíu dögum sem eru liðnir frá því að þessu hættuástandi var lýst yfir hefur flóttamönnum sem hingað hafa leitað fjölgað talsvert og eru nú 2.879 og hefur þeim því fjölgað um 161 einstakling á þessum tíu dögum. Ég vil því spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um stöðuna: Hvernig hefur verið brugðist við henni? Hvað hefur verið gert eftir að búið var að lýsa yfir hættuástandi? Hafa viðræður við sveitarfélög, um að þau taki á sig aukna ábyrgð í þessum málaflokki, skilað einhverjum árangri?