Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

Verðbólga, vextir og staða heimilanna.

[15:14]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg og góð svör. Það er auðvitað þannig að hér hefur ýmislegt gengið á eins og um allan heim á síðustu árum. Við höfum farið í gegnum alheimsfaraldur og nú stríð í Evrópu og það hefur áhrif. Þetta hefur haft áhrif á heimilin í landinu og þetta hefur haft áhrif á almenning. Við vitum að með hækkun stýrivaxta er Seðlabankinn að reyna að hafa áhrif á heildareftirspurn í hagkerfinu og að lokum auðvitað verðbólguna. En með öruggri stjórn ríkisfjármála er ríkissjóður, eins og komið hefur fram, betur í stakk búinn til að takast á við þetta efnahagslega högg.

Hann veldur manni vissulega einhverjum áhyggjum, eins og hefur reyndar komið fram í máli annarra þingmanna, þessi hópur sem nýtti sér lágvaxtaumhverfið sem við gengum nýlega í gegnum en vonandi horfum við aftur á þá fyrri stöðu. Það fólk horfist nú í augu við mun hærri greiðslubyrði en það gerði fyrir örfáum mánuðum. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir. En eins og hæstv. ráðherra kom reyndar inn á í svari sínu er önnur tegund lána, sem eru verðtryggð lán, með lægri greiðslubyrði og geta þau að einhverju leyti gripið inn í þróun mála hjá þessum hópi.

Það væri áhugavert að vita hvort búið sé að greina þann hóp sem er að lenda í greiðsluvanda, eða á mögulega á hættu að lenda í því, og jafnframt hversu stór hópur tók óverðtryggð húsnæðislán á árunum 2019–2021.