Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[16:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur sem er að koma hingað inn í þriðja skipti. Mér hlotnaðist sá heiður á fyrra þingi að vera framsögumaður á málinu sem hafði þá verið til umfjöllunar á fyrra kjörtímabili. Þegar við vorum að fjalla um málið skýrðist það nokkuð enda var í nefndinni fólk sem hafði áður verið í nefndinni og hafði fjallað mikið um málið. Eins var mikil umfjöllun úti í samfélaginu hvað þetta varðar.

Engum blöðum er um það að fletta að við erum í svolítið gömlu kerfi hvað þetta varðar. Við erum ekki endilega að tala um að það hafi verið svo virkilega slæmt að ekki hafi verið hægt að nota það, við höfum öll nýtt okkur leigubíla síðustu áratugina. En það var bankað í öxlina á okkur frá Evrópusambandinu og Eftirlitsstofnun EFTA gerði, eftir frumkvæðisathugun, athugasemd við að það væru svo miklar hindranir inn á leigubílamarkaðinn á Íslandi, að aðgengi að honum væri erfitt þannig að það uppfyllti ekki þann sáttmála sem við hefðum skrifað undir. Eitthvað verðum við að gera í því og ég held að við getum öll verið sammála um að það kerfi sem hefur verið við lýði frá 1950 sé barn síns tíma og endurspegli það samfélag sem var þá.

En hvernig við getum mögulega komið þessu sem best fyrir? Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar, sem talaði hér á undan mér, að við þyrftum að setja það upp fyrir okkur hvernig þetta myndi virka. Vissulega er það kannski aldrei hægt nema að fenginni reynslu en við erum komin með þokkalega mynd af því sem ég tel að eigi að virka hjá okkur eins og annars staðar á Norðurlöndum. Lög og reglur um leigubílaakstur annars staðar á Norðurlöndum hafa undanfarin ár verið að þróast í þessa veru, í átt til meira frjálsræðis og fjöldatakmarkanir á leyfum til leigubílaaksturs hafa ýmist verið afnumdar eða þá að slíkt er í farvatninu. Stundum hefur verið talað um norska kerfið, að Norðmenn séu að hugsa um að fara til baka. En eftir því sem mér skilst, bæði í umfjöllun nefndarinnar í fyrra og eins hef ég heyrt það núna, eru þeir að horfa til þeirra breytinga sem við gerðum á frumvarpinu í fyrra, sem liggja fyrir í þessu frumvarpi.

Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á áðan fjallaði Öryrkjabandalagið um takmarkanir þeirra til að komast að leigubílamarkaðnum sem atvinnumarkaði. En eins og stendur í frumvarpinu, um mat á áhrifum, þá er frumvarpið til þess fallið að auka atvinnutækifæri fjölbreyttari hópa. Hér er reyndar sérstaklega rætt um konur og hlutastörf og það er akkúrat það sem öryrkjar eru að kalla eftir, breytingum í þá veru að einstaklingar hafi meiri möguleika á að starfa við leigubílaakstur í hlutastarfi og eins líka að það sé meira svigrúm. Öryrkjar eru kannski ekki að kalla eftir því að vera í fullu starfi sem leigubílstjórar, þetta er hópur sem hefur kannski ekki fulla starfsgetu. Ég held að þetta sé svarið við því. Eins var Blindrafélagið að tala um stöðvaskylduna og að um viðkvæma hópa væri að ræða. Ég tek undir það, það er mjög mikilvægt að umgjörðin sé tryggð um þessa þjónustu sem er mjög persónuleg, eins og leigubílaakstur með þessa hópa, enda setjum við þeim sem vinna við þetta ýmis skilyrði. Atvinnubílstjórar þurfa almennt, hvort sem þeir keyra rútu eða aðra bíla, að gangast undir námskeið og annað sem skiptir mjög miklu máli. Ég vil nefna sérstaklega hópa eins og blinda eða sjónskerta og heyrnleysingja, hvernig þjónum við þeim? Um þetta var talað í fyrra, að við gætum sett það inn í skilyrði fyrir námskeiðum að þetta sé tekið fyrir og mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli. Þetta er akkúrat hópurinn sem verður að vera tryggt að hægt sé að þjónusta. Við breyttum þessu líka í fyrra eins og með stöðvaskylduna og annað. Það er bara á þremur stöðum á landinu sem starfsstöðvar skulu vera skilyrtar. Umfram það er kannski einn leigubíll á fámennum stöðum og það er ekki víst að hann fái undanþágu eins og verið hefur.

Talandi um samráð þá hefur málið verið unnið í nokkuð miklu samráði. Í byrjun var starfshópur settur af stað. Ég veit að það hefur verið samráð við stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum um þetta mál og ég held að okkur sé alveg treystandi í hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fjalla vel um þetta. Það gafst ekki mikill tími til þess í vor en ég held að við höfum gengið nokkuð vel frá málinu. Enda sé ég, og ég er stolt af því sem framsögumaður, að frumvarpið sem er lagt fram núna er í samhljómi við þær breytingar sem við lögðum til í nefndinni í fyrra. En við getum örugglega gert betur. Ég treysti okkur alveg til að fá málið inn til okkar aftur, skoða það, fá umsagnir og hafa kannski betri tíma til að kalla fleiri fyrir. Það er ekki verra, það er bara betra. Vonandi gengur það sem allra best.