Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[16:21]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Er það nefnilega ekki akkúrat þannig? Hv. þingmaður talar um að það sé verið að teikna hús og út komi bíll. Við erum stundum með eitthvað fyrir framan okkur og við sjáum margar myndir í því sem birtist. Ég held nefnilega að það hafi akkúrat verið mikið samráð og við erum ekkert að teikna upp eitthvað sem ekki á við hér, eitthvað sem á ekki við annars staðar. Við erum að horfa sérstaklega til Norðurlandanna, þar sem þetta hefur virkað vel. Við erum með mjög ólíka starfsemi hér á landi. Við erum að tala um höfuðborgarsvæðið þar sem framboð á leigubílum hefur verið mjög takmarkandi, sem hefur komið niður á viðkvæmum hópum. Við getum horft á þessa mynd annars staðar á landinu hvað það varðar að þetta sé mikilvæg þjónusta. Ég sé ekki í fljótu bragði að við sjáum ekki út hvernig þetta getur verið. Hv. þingmaður talar bara um leigubílstjórana, hvað með þá sem eru að kaupa sér þessa þjónustu? Verðum við ekki líka að horfa til þeirra? Við viljum meina, við sem erum fylgjandi þessu frumvarpi, að við séum akkúrat að horfa á þennan hóp án þess að skerða atvinnuréttindi eða afkomu þess fólks sem starfar við leigubílaakstur.