Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 9. fundur,  27. sept. 2022.

framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2.

16. mál
[19:43]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Ég er á þessu máli ásamt fleiri ágætum hv. þingmönnum. Málið er mikilvægt og það hefur dregist allt of mikið. Samflokksmenn mínir úr Sjálfstæðisflokknum hafa farið ágætlega yfir þetta mál, flutningsmaður málsins, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, og hv. þm. Vilhjálmur Árnason.

Málið er þríþætt og snýst kannski fyrst og fremst um afhendingaröryggi á raforku á Suðurnesjum og aukna flutningsgetu inn á svæðið. Þetta er ein lína í dag og raforku- og afhendingaröryggi er mjög takmarkað á Suðurnesjum eins og við þekkjum. Eitt besta dæmið var kannski þegar járnplata fauk af þaki á Suðurnesjalínu 1 fyrir einhverjum árum og sló út rafmagni á Reykjanesi í fimm klukkustundir og þar með á Keflavíkurflugvelli líka. Þetta var mjög sérstakt og það að það skyldi gerast sýndi reyndar hvað það er ótrúlega dapurt hvernig kerfið er byggt upp í dag. Þetta snýst um afhendingaröryggi á Suðurnesjum og þetta snýst um flutningsgetu, bæði frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja og síðan aftur frá Suðurnesjum inn á höfuðborgarsvæðið. Það myndi þá líka styrkja flutningskerfið á höfuðborgarsvæðinu. Í dag eru þar, að mig minnir, fjórar línur í háspennta kerfinu sem flytja raforku inn á svæðið og þær eru orðnar þunglestaðar af raforku. Það er því brýnt líka að auka afhendingaröryggi raforku inn á höfuðborgarsvæðið.

Það er aðeins komið inn á það í landsskipulagsstefnunni hvaða markmið menn hafi sett sér í orkumálunum. Það er því komið fram í þessu ágæta máli. En grunnmálið finnst mér vera að þetta er þjóðaröryggismál. Það snýst um afhendingaröryggi raforku sem er gríðarlega mikilvægt, eins og við þekkjum og upplifðum í þessari viku þegar hálft landið datt út, að mig minnir frá Hvammstanga að Höfn í Hornafirði, norður um allt og austur, í tvær klukkustundir fyrr í þessari viku. Þá var það einmitt háspennta kerfið eða byggðalínan sem fór út, sem þó er hafin uppbygging á. Kröflulína 3 var tekin í notkun fyrir einu ári, eða spennusett frá Fljótsdalsstöð og upp í Kröflu, og hún bjargaði raunverulega töluverðu í vikunni þegar það gerðist að það brotnuðu, að mig minnir, fimm staurasamstæður í gömlu Kröflulínunni, frá Kröflu í Fljótsdalsstöð. Það er í fyrsta skipti sem slík tjón hafa komið fram á þeirri línu. Það er ótrúlega heppilegt að það skyldi akkúrat hafa gerst eftir að nýja línan var tekin í notkun fyrir ári síðan.

Það að tryggja innviðina á Suðurnesjum er bara hluti af því stóra markmiði að ná að tengja raforkukerfi landsins, háspennta kerfið, alveg frá Reykjanestá og austur í Fljótsdalsstöð á næstu árum, sem allra fyrst. Eins og kerfisáætlun Landsnets er í dag er talað um að það eigi að nást 2032 ef allt gengur eftir og nú er náttúrlega að tryggja að það gangi eftir. Þetta hefur, eins og við þekkjum, gengið mjög erfiðlega víða á síðustu árum. Flutningsmaður þessa máls, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, talaði um að þetta væri orðinn 17 ára ferill. Við þekkjum þessi mál á Norðurlandi og Austurlandi. Þar er eitthvað svipað í gangi, 20–25 ára ferill þar sem er búið að bíða eftir að þetta klárist.

Þetta er líka mjög stór hluti af orkuskiptunum sem við erum að tala um. Ef markmiðin eiga að nást um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 þá þurfa þessar framkvæmdir að fara fram sem fyrst, ef byggja á upp þann möguleika yfirleitt að þessi markmið náist. Eins og hv. flutningsmaður málsins fór ágætlega í gegnum eru, eins og staðan er í dag, engir möguleikar á því á Suðurnesjum.

Maður horfir líka til atvinnuuppbyggingar. Talað er um að fara í mikið fiskeldi á landi. Það er gríðarlega orkufrekt. Uppbygging Keflavíkurflugvallar er gríðarlega orkufrek framkvæmd ef allar stækkanir og allt gengur eftir þar og þau umsvif sem er stefnt á að fara í á næstu árum og áratugum. Það er gríðarleg orka sem þarf líka í það. Þetta er bara hluti af markmiðum okkar í stóru myndinni. Ef við tölum um stærri myndina sem ég er kannski helst að reyna að fara yfir hér — ef þau markmið eiga að nást í loftslagsmálum þá verðum við að fara í þessa uppbyggingu hratt og vel og tryggja hana fljótt og vel.

Ég er þeirrar skoðunar að 2032 sé of seint að byggja upp þegar ég tala um Reykjanestá alveg austur í Fljótsdalsstöð. Það á að fara allar þær leiðir sem hægt er að fara og fjárfesta hratt og vel og tryggja að hægt sé að fara í þetta sem allra fyrst. Ef okkur er einhver alvara í þessum málum hér á Alþingi, í loftslagsmarkmiðum og loftslagsmálum, þá er þetta kjarninn, hryggjarstykkið í því að þau markmið náist á næstu árum. Það er alveg furðulegt hversu lítið hefur verið rætt um það. Við getum virkjað og virkjað en ef við höfum ekki það öfluga flutningskerfi sem við höfum til að nýta okkar grænu orku, sem er í sjálfu sér farið illa með í dag — við gætum nýtt hana miklu betur með öflugu flutningskerfi og látið orkukerfin okkar spila saman, á suðurhluta landsins og fyrir norðan. Nú er talað um vindorku sem fellur algjörlega að þeirri mynd. Það er lykilatriði fyrir áætlun um orkuframleiðslu með vindorku að vera með öflugt flutningskerfi. Það er raunverulega bara forsenda þess að hægt sé að gera það með góðum og almennilegum hætti. Fyrir þau markmið sem við sjáum fyrir okkur þurfum við öflugt flutningskerfi og þetta er bara einn hluti af því.

Hér hefur kannski verið talað meira um Suðurnesin sem slík en ef við ætlum að ná þeim risamarkmiðum sem við ætlum okkur að ná — og manni finnst þau risastór en það er nú þannig að 80% af orkunni sem við framleiðum og nýtum á Íslandi í dag er græn orka. Þá er oft bent á að í Evrópusambandinu er þetta hlutfall 15% og þar ætla menn að ná sömu markmiðum og við. Okkur þykir þetta stórt og þá getur maður rétt ímyndað sér hvernig það er fyrir Evrópusambandslöndin að fara úr 20% í 100% á kannski 20–30 árum. Ef við ráðum ekki við þetta verkefni, að leggja háspennta kerfið og byggðalínuna, gera það af einhverju viti og tryggja hratt og vel að þau skipulagsmarkmið náist og markmið þjóðarinnar og þessa þings hér sem hafa verið sett um þessi loftslagsmarkmið og grænorkuframtíð, ef við komumst ekki yfir þennan hjalla, þá erum við aldrei að fara að ná þessum markmiðum. Þannig að í stóra samhenginu finnst mér þetta — það er búið að fara í gegnum forsendurnar, ég skil alveg umræðu um strengi og annað, svo að því sé haldið til haga. Svo hefur líka verið bent á tæknimálin, að á jarðskjálftasvæðum sé ekki heppilegt að reisa línur eða að leggja strengi í jörð þegar ákveðin gliðnun er á veginum og hreyfing.

Þetta mál er þjóðarnauðsyn og það á að tala um loftslagsmarkmiðin og þjóðaröryggi og hafa það að leiðarljósi. Ef það næst ekki lausn á þessu máli fljótt og vel þá þykir mér ekki annað hægt en að við hér á Alþingi klárum þetta mál og sköpum þær forsendur að hægt sé að fara í framkvæmdir hratt og vel, eins og langstærstur hluti, eins og komið hefur fram hér, sveitarfélaga og íbúa á Suðurnesjum vill að gert sé.