Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

öryggis- og varnarmál.

[11:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Málshefjandi vék m.a. út frá þeirri fullyrðingu forsætisráðherra að ekki yrði óskað eftir fastri viðveru herliðs á Keflavíkurflugvelli og spurði hvort ráðherrann ætlaði virkilega að halda sig við þá stefnu. Þetta upplegg ruglaði mig svolítið vegna þess að föst viðvera hefur verið á Keflavíkurvelli núna í dálítið mörg ár. Það hefur bara aldrei verið tekin ákvörðun um það. Hún er ekki föst í þeim skilningi eins og var hér áður en herstöðinni var lokað 2006, að það væri sama herliðið allan tímann, heldur er þetta auðvitað róterandi herlið, 100, 200 og 500 manns á hverjum einasta degi allt árið um kring. Þetta kom ekki í ljós fyrr en undir lok árs 2018 þegar staðan hafði verið þessi í þrjú ár. Þetta kom í ljós í svari við skriflegri fyrirspurn minni til utanríkisráðherra. Í þögninni hafði herstöðin bara opnað aftur. Þetta er einmitt vandinn við að utanríkismál séu ekki rædd nógu mikið vegna þess að það eru teknar stórar ákvarðanir án nokkurs atbeina Alþingis. Þessi aukna viðvera, þessi varanlega viðvera, þessi fasta viðvera, hvað sem við köllum það, það er hægt að toga og teygja orðin, þýðir að það eru alltaf hermenn hundruðum saman á Keflavíkurvelli og þessi viðvera var ákveðin á grundvelli samkomulags milli utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna 2016. Það var bara gert á þeirra kontór, kom ekki til þingsins, kom ekki til frekari umræðu og er ekki eins ítarlegt og það þarf að vera. Norðmenn voru að uppfæra tvíhliða varnarsamning sinn við Bandaríkin á síðasta ári. Hann fór til þingsins og var samþykktur þar núna í vor. Þingið hefur þar eitthvað um þessi mál að segja. Þar er t.d. kveðið á um (Forseti hringir.) upplýsingaskyldu varðandi búnað sem er komið fyrir í vöruhúsum í Noregi á vegum Bandaríkjahers. (Forseti hringir.) Hér á Íslandi er verið að bjóða út 12.000 fermetra vöruhús. Ég veit ekki til þess að það verði einhver upplýsingaskylda til okkar varðandi hvað Bandaríkjaher ætlar að geyma í þeim. (Forseti hringir.) Þessi skortur á gagnsæi á meðan hervæðing Íslands er meiri en nokkru sinni fyrr er ólíðandi, og það á vakt flokks sem á að heita flokkur friðarsinna.