Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[14:50]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ályktunartextinn hljómar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að undirrita og fullgilda samning um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York 7. júlí 2017 og tók gildi hinn 22. janúar 2021.“

Flutningsmenn þessarar tillögu eru ásamt mér hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Orri Páll Jóhannsson, Bjarni Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi tillaga er lögð fram en hún er nú flutt í sjöunda sinn. Ég ætla ekki að lesa greinargerðina sem fylgir málinu enda geta áhugasamir kynnt sér hana á vef þingsins en ég ætla að stikla á stóru í því sem þar kemur fram. Það gerðist í júlí árið 2017 að 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu samning um að banna kjarnorkuvopn. Samningurinn tók svo gildi snemma árs 2021 eftir að 50 ríki höfðu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild. Í greinargerðinni má sjá tölur eins og þær litu út í september á þessu ári um ríki sem hafa undirritað samninginn og fullgilt hann. Þeim hefur sem betur fer fjölgað síðan þá og nú er staðan þannig að 91 ríki hefur undirritað samninginn og 68 ríki hafa gengið alla leið og fullgilt hann, gert hann að lögum í sínu landi.

Það er til marks um mikilvægi þessa samnings að samtökin ICAN, sem unnu ötullega að gerð hans, hlutu friðarverðlaun nóbels árið 2007 og í rökstuðningi nóbelsnefndarinnar með því af hverju ICAN hlutu friðarverðlaunin segir að samtökin hafi átt stærstan þátt í að leiða saman þjóðir heims og undirbúa gerð þessa mikilvæga sáttmála. Það eru ekki einungis ríki sem hafa komið að gerð hans heldur einnig ýmiss konar félagasamtök og friðarhópar um allan heim sem hafa komið að og tekið þátt í vinnunni og gera raunar enn.

Aðdragandi þessa samnings er langur. Samningur um að vinna gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna frá 1968, NPT-samningurinn svokallaði, sem 191 ríki er aðili að, hefur löngum verið talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði kjarnorkuvígbúnaðar, en því miður hafa þjóðir ekki gefið þessum samningi nægjanlegan gaum og því miður hafa flest kjarnorkuveldin varið svimandi háum upphæðum til þróunar á nýjum og fullkomnum kjarnorkuvopnum og það á sér stað víða um heim einmitt núna. Á valdatíma Trump-stjórnarinnar í Washington hljóðaði orðræðan upp á það að gert var ráð fyrir möguleikum á mun víðtækari beitingu á kjarnorkuvopnum en áður hafði verið rætt. En það verður að segjast eins og er að sjá mátti ákveðin jákvæð teikn með því að Joe Biden varð forseti, enda hefur hann ýjað að þeim möguleika að Bandaríkjastjórn kunni að hverfa frá því að áskilja sér rétt til beitingar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. Það er svo sem ekkert handfast í því og ekkert ólíklegt að í þeim ólgusjó sem heimsmálin eru núna sé kannski óraunhæft að gera sér vonir um slíkt.

Aftur að þessum samningi og þingsályktunartillögunni: Ríki um víða veröld hafa lagt hönd á plóg í baráttunni fyrir samþykkt og gildistöku sáttmálans. Þó svo að langflest ríkin sem eru aðilar að honum séu í Asíu, Suður-Ameríku og Afríku eru nokkur Evrópulönd sem hafa undirritað samninginn. Ég ætla bara að nefna sem dæmi Austurríki, Írland og Liechtenstein. Því miður ákváðu nær öll aðildarríki NATO að sniðganga viðræður um gerð sáttmálans og hafa ekki gerst aðilar að honum. Hugsanlega má tengja það við að hernaðarstefna bandalagsins byggist enn á því að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.

Frú forseti. Staða heimsmálanna hefur auðvitað breyst með innrásarstríði Rússa í Úkraínu og við sjáum það glöggt hvaða hræðilegu afleiðingar stríð hefur fyrir almenna borgara. Því miður er það svo að Rússar hafa látið í það skína, ýjað að því, að notkun kjarnorkuvopna væri möguleg. Það er eitt og sér alveg grafalvarlegt mál. Fyrr í mánuðinum var Norður-Kórea einnig með æfingar sem sneru að notkun skammdrægra flauga sem geta borið kjarnorkuvopn. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og undirstrikar enn og aftur mikilvægi þess að þjóðir heimsins taki sig saman um að banna þessa tegund vopna. Það höfum við áður gert, til að mynda með jarðsprengjur og efnavopn. Það voru einmitt ríkin sem ekki höfðu yfir slíkum vopnum að búa sem ruddu þar brautina. Ég tel mikilvægt að halda áfram á þessari leið og meðan við erum enn aðilar að NATO að leggja áherslu á að alltaf sé óásættanlegt að beita kjarnorkuvopnum, að það sé algerlega út úr öllu korti að tala einhvern tímann fyrir beitingu þeirra að fyrra bragði.

Það er annað mál sem hefur aftur verið lagt fram núna, sem tengist þessu máli, en það er frumvarp til laga um að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vinna að kjarnorkuafvopnun á mörgum stöðum í einu. Þess vegna finnst mér þessi tvö mál sem bæði eru flutt af þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skipta máli. Sannast sagna verð ég að viðurkenna að ég hafði gert ráð fyrir því að hér yrði fullur þingsalur við umræðu á þessu máli í dag í ljósi þess að fyrr í dag fór fram sérstök umræða um öryggis- og varnarmál.

Það er fátt sem myndi ógna öryggi heimsins meira en það að kjarnorkuvopnum væri beitt. Það er fátt sem ógnar öryggi heimsins meira en að það verði kjarnorkuslys. Í ljósi þess hversu mörg töluðu hér um mikilvægi þess að ræða öryggis- og varnarmál var ég satt að segja að vonast eftir því að hér yrði lífleg umræða í dag, jafnvel að tekist yrði á um ólíkar leiðir að því hvernig mætti ná markmiðinu um kjarnorkulausan heim. Okkur getur alveg greint á um leiðirnar en ég ætla að leyfa mér að vona að við séum öll sammála um að kjarnorkuvopn eigi aldrei að nota. Líkt og ég var að vísa í hér áðan þá er umræða dagsins sú að möguleiki sé á því að beita kjarnorkuvopnum. Það er stundum talað um eitthvað sem kallað er lítil og taktísk kjarnorkuvopn og að hægt sé að beita þeim í staðbundnum hernaði, til að mynda, getur maður ímyndað sér, á átakasvæðum heimsins í dag. En staðreyndin er sú að frá því að kjarnorkusprengjum var varpað á Hírósíma og Nagasaki hafa kjarnorkusprengjurnar stækkað þannig að það sem er talað um í dag sem lítil og taktísk vopn eru jafnvel sprengjur sem eru stærri en þær sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki, bara til að setja umræðuna í samhengi við það sem við erum að tala um hér í dag en tengja hana einnig við söguna.

Ég held að það séu u.þ.b. 26 þingmenn sem hafa skrifað undir „ICAN parliamentary pledge“, eins og það heitir á ensku, með leyfi forseta, þ.e. heit um að vinna gegn kjarnorkuvopnum. Þetta er næstum þriðjungur þingsins sem mér finnst vera jákvætt. Ég treysti því að við í Vinstri grænum eigum okkur marga bandamenn þegar kemur að þessu máli. Vegna stöðunnar í heiminum í dag er þetta mál eins mikilvægt og nauðsynlegt inn í alla umræðu um öryggis- og varnarmál og framast getur orðið. Ég vona þess vegna, treysti því og raunar veit að málið mun fá góða og vandaða umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd. Ég legg því til hér í lok umræðunnar að málinu verði vísað til utanríkismálanefndar. Ég vona svo sannarlega að síðar á þessu þingi fáum við það aftur hingað inn og þá til að geta samþykkt að Ísland verði aðili að samningi um að banna kjarnorkuvopn sem þegar hefur tekið gildi. Það er þegar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna búið að banna kjarnorkuvopn og auðvitað á Ísland að vera þátttakandi í slíkum samningi.