Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 10. fundur,  29. sept. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

86. mál
[15:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni hérna þá nýtur þetta mál miklu víðtækari stuðnings en blasir við við fyrstu sýn, þar sem flutningsmenn eru ekki nema fimm þingmenn Vinstri grænna. 21 þingmaður úr fimm ólíkum stjórnmálaflokkum sem sitja á þingi hafa skrifað undir það heit ICAN-samtakanna, sem börðust fyrir samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum, að vinna að því að Ísland gerist aðili. Þannig að þetta mál nýtur frá fyrsta degi stuðnings þriðjungs þingheims og því er vonandi að það fari betur fyrir því en hin sex skiptin sem það hefur verið lagt hér fram, vegna þess að það er ekkert sem ógnar friði jafn mikið og kjarnavopn. Við sáum það bersýnilega í byrjun árs þegar Pútín byrjaði herferð sína gegn Úkraínu með því að hóta beitingu kjarnavopna. Vegna þess að Rússland býr yfir kjarnavopnum er allt öðruvísi tekið á því ríki en tekið væri á ríki sem viðhefði jafn yfirgengilegar hótanir og gert er núna í innrásarstríði gegn Úkraínu. Svo hélt Pútín áfram í síðustu viku að minna heiminn á að hann ætti kjarnavopn og væri ekkert hræddur við að beita þeim.

Vandinn er að það er ekki hægt að búa til neitt kerfi utan um þessi vopn sem kemur í veg fyrir að menn af kalíberi Pútíns komist einhvern tímann í valdastöðu og geti beitt þeim. Meðan sú er staðan þá verðum við að styðja við allt það sem við getum til þess að draga úr lögmæti tilvistar kjarnavopna. Það er einmitt það sem þessi nýi samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum gerir, sem eldri samningar um afvopnun gera ekki. Eldri samningar ganga ekki svo langt að beinlínis banna vopnin heldur einhvern veginn að reyna að koma böndum á þau. Hér er talað um aðalsamninginn á þessu sviði, samninginn um að dreifa ekki kjarnavopnum frá árinu 1968, NPT-samningurinn svokallaði sem er allur á forræði og forsendum kjarnorkuveldanna. Þau eru mjög ánægð með þann samning vegna þess að hann er í rauninni með eyðu þar sem ætti að standa að endanlegt markmið sé útrýming vopnanna og bann við þeim. Þetta snýst allt um að tempra brjálæðið. Þannig að þessi nýi samningur — sem er gildur, hann er í gildi, þetta er samningur Sameinuðu þjóðanna sem er í gildi — bannar kjarnavopn. Kjarnavopn eru bönnuð í dag. Hann er í rauninni til fyllingar hinum samningnum. Hann styður við það sem sá samningur svona á yfirborðinu segist vera að gera.

Þau ríki sem segjast vera að vinna í áttina að kjarnavopnalausum heimi geta ekki sagt það án þess að gerast aðilar að þessum samningi. Þess vegna er svo ótrúlega ergilegt að Ísland skipi sér í öllu þessu ferli í lið með kjarnorkupésunum. Við erum eitt af þeim ríkjum sem hafa barist hvað harðast gegn því að þessi samningur verði til og núna stendur Ísland með aðallega NATO-ríkjunum og reynir einhvern veginn að hunsa samninginn, mætir ekki einu sinni sem áheyrnarfulltrúi á fyrsta aðildarríkjafund samningsins sem haldin var í Vínarborg í sumar þar sem þó mættu fjögur NATO-ríki. Þýskaland, Noregur, Holland og Belgía mættu til Vínarborgar, voru með dálítinn snúð, voru ekkert með í liði, en tóku alla vega samtalið, lýstu yfir stuðningi við meginmarkmiðin. Þótt þau, verandi trú sinni NATO-aðild, segðu að NPT-samningurinn væri það sem þau ætluðu að standa við þá voru þau alla vega í herberginu. Þar hefði Ísland líka átt að vera. Þar hefði Ísland auðvitað átt að vera, ekki síst vegna þess að ríkisstjórninni er stýrt af einum af þeim þingmönnum sem hafa skrifað undir heit ICAN um að styðja þennan samning og vinna að framgangi hans. Þess vegna er svo skrýtið að á fimmta ári ríkisstjórnar, þar sem einn af flokkunum er allur með þessu máli, hafi það enn ekkert þokast áfram. Ísland er með meiri harðlínu gagnvart þessum nýja samningi en Þýskaland, Noregur, Holland og Belgía, sem þó eru NATO-ríki eins og Ísland. Í Noregi er meira að segja búið að skrifa í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin ætli að vinna með þessum samningi sem áheyrnarfulltrúi. Þau náðu saman um það, ólíkir stjórnmálaflokkar í Noregi, að mæta alla vega á þessa fundi.

Vandinn við þessa afstöðu Íslands er eiginlega bara eins og það sem kristallaðist þegar Svíþjóð sótti um aðild að NATO; það er ekki hægt að bæði berjast fyrir kjarnorkuvopnlausum heimi og vera ekki með í þessu samtali. Fyrir nokkrum mánuðum þegar sænska ríkisstjórnin tilkynnti að hún myndi sækja um aðild að NATO sagði hún friðarhreyfingunni í Svíþjóð að hafa engar áhyggjur, Svíþjóð myndi áfram vera sterk og skýr rödd í afvopnunarmálum á heimsvísu vegna þess að Svíþjóð hefur verið, mér liggur við að segja risi í þessum málaflokki um margra ára skeið, arfleifð sem teygir sig aftur til Olofs Palme og jafnvel lengra. Eitt það fyrsta sem gerist eftir að aðildarumsókn er skilað inn er að utanríkisráðherra Svíþjóðar skilar inn bréfi samhliða því til NATO þar sem hún segir að Svíþjóð átti sig á, virði, skilji og styðji að kjarnavopn séu hjartað í varnarstefnu NATO. Það er nefnilega það sem stendur í stefnumörkun bandalagsins, það er það sem stendur í pappírum sem leiðtogar NATO-ríkjanna skrifuðu undir á leiðtogafundi núna í vor: Kjarnavopn eru hjartað í vörnum bandalagsins. Hvernig er það orðað? „The ultimate defence“, hin endanlega vörn, með leyfi forseta. Svona getur ríki ekki talað ef það ætlar að berjast fyrir útrýmingu kjarnavopna.

Þetta er svo stuttur tími, frú forseti, að ég kemst ekki í að nefna helming af því sem mig langaði að segja en mig langar að víkja aðeins að því, vegna þess að hv. fyrsti flutningsmaður málsins, Steinunn Þóra Árnadóttir, nefndi ríkin sem höfðu forgöngu að þessum samningi, að fólki hættir stundum til að gera lítið úr þeim vegna þess að þetta eru oft fátæk og lítil ríki í Afríku, Asíu, Suður-Ameríku og Eyjaálfu. En þetta eru líka ríkin sem hafa upplifað afleiðingar kjarnavopna. Þetta eru ríkin sem hafa kannski ekki upplifað sprengingar í hernaðarlegum tilgangi — það er bara Japan þar sem sú sá atburður hefur átt sér stað en eftirlifendur þeirrar árásar hafi verið leiðandi í baráttunni fyrir þessum nýja samningi — þetta er allt fólkið sem hefur þurft að lifa við tilraunirnar. Tilraunasprengingar undir berum himni voru stundaðar áratugum saman, oftast í fátækum gömlum nýlendum kjarnorkuveldanna, stundum án þess að íbúum væri einu sinni gerð grein fyrir því hvaða hætta væri á ferðum. Aukin tíðni krabbameina og alls konar leiðindi fylgdu. Þetta er fólkið sem beitti sér fyrir þessum samningi og þess vegna eigum við að styðja hann, ekki bara vegna þess að við viljum vinna í átt að friði og kjarnorkuvopnalausum heimi af einhverjum prinsippástæðum heldur til að standa með þolendum. Þessi nýi samningur er samningur á forsendum þeirra.