Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er auðvitað matskennt mál og það er mjög mikilvægt að farið sé vandlega yfir það. Í frumvarpinu er reyndar gerður mikill greinarmunur á því hvernig gjaldþrot er til komið og hvernig því er háttað. Auðvitað er mjög mikilvægt að þetta verði ekki heftandi fyrir atvinnustarfsemi eins og við þekkjum, nýsköpunarstarfsemi og rekstur fyrirtækja þar sem allt er í góðu lagi. Fólk lendir í áföllum, eins og gerist alltaf, sem getur leitt til þess að fyrirtæki fari í gjaldþrot. Þegar verið er að reyna að ná utan um það matskennda atriði hvenær um kennitöluflakk sé að ræða þá geta dómstólar auðvitað gert kröfu um ákveðna undirbúningsvinnu og greinargerð sem þarf að fylgja. Það verður auðvitað dómstólanna að meta það hversu ítarlegt þetta þarf að vera og ég geri ráð fyrir að eftir því sem málið er meiri vafa undirorpið þá geti sú vinna orðið meiri en ella, en í einhverjum tilfellum liggur þetta væntanlega nokkuð ljóst fyrir. Því verður það auðvitað á endanum að vera mat dómstóla hvað þeir taka til greina í þessum efnum.