Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

gjaldþrotaskipti o.fl.

277. mál
[16:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mig langar að fagna því að þetta mál um kennitöluflakk sé komið fram. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir það og framsöguna með málinu. Ég sat í hv. allsherjar- og menntamálanefnd þegar málið kom síðast til kasta þingsins og okkur auðnaðist ekki að ljúka málinu í það skipti. Almennt var það þó svo að það komu jákvæðar umsagnir um málið og þetta er mál sem verkalýðshreyfingin, m.a. ASÍ, hefur barist lengi fyrir. Ég tel að það verði fyrirtækjum og atvinnulífi á Íslandi til mikilla heilla ef þetta verður gert að lögum, þá auðvitað sérstaklega þeim langstærsta hluta fyrirtækja sem vandar sig í sínum atvinnurekstri, stendur skil á sínu og vinnur vel í sínum málum. Ég kem hér upp fyrst og fremst til að lýsa ánægju minni með að málið sé komið fram. Ég treysti því að það eigi eftir að fá góða umfjöllun í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og vona svo sannarlega að við eigum eftir að gera það að lögum. Eitthvað tekur kannski breytingum í störfum nefndarinnar, það er auðvitað nokkuð sem oft gerist í hinni þinglegu meðferð, en í grunninn er málið gott og ég vona að við eigum eftir að samþykkja það fljótlega.