Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

svör við fyrirspurnum.

[13:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Allt of oft þurfum við að ræða tregðu ráðherra við að svara fyrirspurnum þingmanna. Mig langar að benda hæstv. forseta á tregðu fjármálaráðherra til að svara fyrirspurn, ekki bara þingmanna heldur tveggja þingnefnda. Svo háttar til að þann 7. apríl samþykkti umhverfis- og samgöngunefnd að óska eftir samantekt á útgjöldum til loftslagsmála í fjármálaáætlun, upplýsingar sem ég hefði haldið að lægju bara einhvers staðar uppi á hillu í ráðuneytinu. Við fengum fjárlaganefnd til að kalla eftir þessum upplýsingum fyrir okkur og nú hálfu ári síðar eru engin svör. Hálft ár er liðið án þess að þessum tveimur nefndum hafi verið svarað.

Í síðustu viku fylgdi 140 síðna fylgirit fjárlagafrumvarpi norsku ríkisstjórnarinnar. Til samanburðar höfum við autt blað sem er það sem fjármálaráðherra Íslands skilar þinginu. Þetta snýst ekki bara um að Alþingi sé hunsað, heldur gefur þetta til kynna að ríkisstjórnin sé í algjöru blindflugi í þessum málaflokki. Þetta sýnir alla vega ekki mikinn metnað í loftslagsmálum, svo mikið er víst.