Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[14:32]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir framsöguna og fyrir það framtak að setja þessa vinnu af stað. Það kom mér eiginlega svolítið á óvart á hversu miklum byrjunarreit við erum á þegar kemur að því að koma skikki á þessi mál. Ég man, og við væntanlega flest, stöðuna t.d. í gjaldeyrismálum þjóðarinnar eftir bankahrunið. Þá var farið í þessa vinnu. Þá fengum við högg af því að þessar upplýsingar lágu ekki fyrir þá. Það lá ekki fyrir hvaða neyðarbirgðir af lyfjum við þyrftum o.s.frv. Eins og hæstv. ráðherra kemur hér sjálf inn á í ræðu sinni þá datt ýmislegt á milli í verkefnalistanum á þeim tíma og því er gleðiefni að þetta sé komið. Vissulega væri þó gott ef þetta yrði ekki enn eitt átaksverkefnið, sem við erum býsna flink í, heldur upphafið að einhverri vinnu sem lægi þá bara fyrir á hverjum tíma því að áföllin eiga það til að gera ekki boð á undan sér.

Hæstv. ráðherra talar réttilega um að það þurfi að gera t.d. viðmiðunarkröfu til einkaaðila sem sjá um annað hvort innflutning eða framleiðslu eða innflutning til framleiðslu á ákveðnum mikilvægum atriðum. Í starfshópnum höfðu þessir aðilar ekki fulltrúa, ef ég tók rétt eftir, og langar mig aðeins að fá sýn hæstv. ráðherra á það hvernig þeir geta komið að málum.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í mikilvægum málaflokki, t.d. lyfjageiranum, er þegar orðinn til ágreiningur við aðila úr viðskiptalífinu og innflytjendur lyfja sem segja rangt farið með ákveðna hluti í skýrslunni. Mig langar aðeins að fá sýn hæstv. ráðherra á þetta af því að þetta snýst um að við þurfum að geta gert ákveðnar kröfur til þessara einkaaðila sem og opinberra. En þeir verða líka að hafa það sem þarf til að standa undir þeim kröfum. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér aðkomu þeirra að vinnunni í framhaldinu?