Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[14:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber að þakka þessa skýrslu um neyðarbirgðir. Það er kannski það góða líka við þetta að núna erum við að ræða þetta áður en við dettum ofan í brunninn, byrgja brunninn aðeins áður. Ég ætla að halda mig aðeins við lyfjamálin vegna þess að ég er í velferðarnefnd og líka velferðarnefnd Norðurlandaráðs og þar hefur þetta verið, finnst mér, rætt allt of lengi vegna þess að það slær mann rosalega að við erum með 3.000 skráð lyf, 4.000 með undanþágulyfjum, eitthvað í kringum það, en í Svíþjóð og Noregi erum við að tala um 14.000 tegundir. Eftir þeim upplýsingum sem ég fékk þá virðist vera að við séum meira með gömul lyf og þeir meira með ný lyf. En það sem slær mig mest er hversu litlu munaði bara fyrir stuttu síðan að einstaklingur yrði fyrir varanlegum stórskaða vegna þess að hann vantaði lyf, vantaði lyf í heila viku. Þetta er einstaklingur í hjólastól og hann var kominn í það ástand að það var bara skelfilegt. Þegar ég fór að tala um það mál þá var mér líka bent á að börn hafi lent í svipuðu ástandi. Ég spyr mig: Verðum við ekki að gera eitthvað strax? Verðum við ekki að reyna að flýta fyrir því að tryggja það að það sé ekki lyfjaskortur, að alvarlega veikt fólk sem þarf nauðsynlega á lyfjum að halda lendi ekki í þessari skelfilegu aðstöðu? Ég held að það sé alveg nóg að vera í hjólastól, vera lamaður en lenda ekki líka í þeirri aðstöðu að fá ekki lyfin sem eiga að hjálpa viðkomandi til þess að geta alla vega lifað nokkuð eðlilegu lífi miðað við aðstæður.