Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[14:42]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er greinilegt að lyfin og lækningatækin eru ofarlega í huga margra hv. þingmanna, eðlilega eftir það sem á undan er gengið í heimsfaraldri. Hv. þingmaður nefnir hér þessa umræðu sem verið hefur á norrænum vettvangi sem mér finnst áhugaverð, bæði um þann fjölda lyfja sem undir er, annars vegar lyf skráð sem undanþágulyf og hins vegar skráð lyf. Það væri áhugavert að taka það til skoðunar af hálfu heilbrigðisráðherra hvort þessi hlutföll séu ólík hér á landi miðað við annars staðar á Norðurlöndum. Þetta finnst mér mjög góð ábending.

Ég vil aðeins nefna það hér, af því að sóttvarnalög eru fram undan á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra, að þar er fjallað að einhverju leyti um skyldur sóttvarnalæknis þegar kemur að því að til séu nauðsynlegar birgðir. Í reglugerð um sóttvarnaráðstafanir frá 2012 er kveðið á um að sóttvarnalæknir hafi umsjón með afhendingu, dreifingu og notkun öryggisbirgða lyfja sem er kveðið á um í viðauka þeirrar reglugerðar sem og annars nauðsynlegs búnaðar í landinu til að bregðast við heilbrigðisógnum. Síðan er það innkaupadeild Landspítalans sem hefur séð um að tryggja slíkt öryggisbirgðahald lyfja með því að tryggja að nægur veltulager sé til hjá birgjum landinu. Þá er samið við birgjana um að tryggja þennan veltulager gegn gjaldi. Þennan viðauka sem fjallar um öryggisbirgðir þarf að endurskoða. Það þarf að skilgreina vábirgðir og neyðarbirgðir, tryggja líka að hann sé endurskoðaður reglulega, að hann sé ekki bara endurskoðaður einu sinni og svo lagður til hliðar, og einnig að skilgreina ábyrgðaraðila þessara birgða, hvað er á hendi Landspítala, hvað er á hendi sóttvarnalæknis og hvað á hendi Lyfjastofnunar. Til að mynda heldur Landspítali úti neyðarlyfjalista fyrir allt landið. Sá listi er ekki lögbundinn. Þetta tel ég að við höfum tækifæri til að skilgreina miklu betur í löggjöf þannig að það sé með viðunandi hætti gert.