Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[14:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég er innilega sammála henni og ég held að við þurfum að bretta upp ermarnar og sjá til þess að við séum með lyfjabirgðir. Við þurfum líka að einfalda regluverkið. Það er svolítið skrýtið og flókið kerfi. Það er búið að benda á að það háir okkur að við viljum hafa íslenska bæklinga og þurfum að setja bækling ofan í hverja pakkningu. Við erum komin með tækni, við getum verið með skanna, það er hægt að skanna þetta inn og þá er hægt að fara á netið og lesa þetta. Því miður, í flestum tilfellum, virðist fólk ekki lesa þessa bæklinga. Það þarf að einfalda hlutina.

Hæstv. forsætisráðherra sagði áðan að hún vildi ekki vera með birgðir í landinu sem yrðu kannski aldrei notaðar. Þar er ég ósammála. Það er eitt sem ég myndi vilja að væri til hérna og er lagt til í skýrslunni og það eru slökkviskjóður. Þrjú stykki slökkviskjóður til að slökkva gróðurelda og skógarelda. Ég yrði alveg guðs lifandi feginn ef þær yrðu aldrei notaðar en ég myndi vilja hafa þær hérna og ég hef barist fyrir því. Við erum einhvern veginn ekki að taka á þessu, höldum alltaf að þetta komi ekki fyrir hér. Við höfum Mýraeldana og fleira okkur til aðvörunar og við eigum að vera tilbúin.

Svo er annað í sambandi við grænmeti. Við eigum að geta stóraukið grænmetisrækt. Við höfum allt, við höfum rafmagnið, vatnið, bæði heitt og kalt. Ef við getum verið með álverksmiðjur og annað, þá hljótum við að geta verið mjög stórtæk í grænmetisframleiðslu, jafnvel verið það stórtæk að við gætum flutt það út. Það segir sig sjálft að ef lönd eins og Holland getur staðið í stórfelldum útflutningi á grænmeti í þeirri aðstöðu sem þeir eru í, þá hljótum við að geta gert þetta á svipaðan hátt og jafnvel betur. Ríkið á að koma þarna að og sjá til þess að grænmetisbændur standi þá jafnfætis og geti gert þetta vel.