Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 12. fundur,  11. okt. 2022.

Niðurstöður starfshóps um neyðarbirgðir, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[16:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Á meðan við vorum að ræða hér um birgðir, m.a. lyfjabirgðir og annað, þá birtist einmitt frétt í Finnlandi, eftir fréttamannafund ríkisstjórnarinnar um aukna hættu á kjarnorkuslysi, um það að allar joðbirgðir í landinu hefðu selst upp. Þetta er dæmi um að nágrannalönd okkar eru að fara í gegnum krísu þar sem birgðirnar hreinlega klárast á nokkrum klukkutímum.

En mig langaði að ræða nokkur atriði í viðbót. Fjarskipti eru rétt nefnd í skýrslunni og eitt af því sem við þurfum að ræða og taka til skoðunar þegar kemur að krísuástandi, hvort sem það er af völdum náttúrunnar eða mannavöldum, er að við erum mjög háð þeim örfáu sæstrengjum sem hingað liggja. Þeir eru þrír í augnablikinu, ef ég man rétt, og ef þeir fara allir út í einu vegna einhverrar bilunar, árásar, jarðskjálfta á sjávarbotni, eldgoss eða hvers sem er, þá þurfum við að ræða hvernig við ætlum t.d. að forgangsraða fjarskiptum til útlanda. Í dag erum við í raun búin að losa okkur við flestallar gervihnattatengingar sem við höfum haft og erum þar af leiðandi í miklum vanda ef þetta gerist. Við þurfum að vera búin að ræða við framleiðendur og þá sem eru með gervihnattabúnað um hvort hægt sé að fá slíkan búnað hingað til lands hratt og auðveldlega ef eitthvað slíkt gerist. Við gleymum því líka allt of oft hvað getur raunverulega gerst. Við þurfum ekki annað en að líta til þess að á Reykjanesi varð eldgos og allt í einu vöknuðum við upp við að það getur gosið þar sem aðalflugvöllurinn okkar er staðsettur. Hvað ætlum við að gera ef Keflavíkurflugvöllur er úti í marga mánuði? Hvernig ætlum við að tryggja flutninga til og frá landinu?

Mig langaði líka að ræða um viðbragðsaðila. Við erum með kerfi sem byggir mikið á sjálfboðaliðum og þurfum að hugsa um hvernig við tryggjum að þessir viðbragðsaðilar geti tekið þátt. Það kom t.d. mikið til umræðu í kringum bólusetningar að sjálfboðaliðar í björgunarsveitum og Rauða krossinum voru ekki í neinum forgangi þrátt fyrir að gegna mjög mikilvægu hlutverki. Við þurfum einnig að byggja upp samstarf við einkageirann og horfa til alls konar fyrirtækja sem geta leikið mikilvægt hlutverk og þurfum að byggja upp þetta samstarf áður en eitthvað gerist. Það sem gerðist hjá okkur í eldgosinu fyrir ári síðan má ekki endurtaka sig; allt í einu uppgötvuðu menn að gasgrímurnar sem til voru í landinu frá 1956 — hluti af Marshall-aðstoðinni og búnar að vera í gám hjá almannavörnum í 70 ár — virkuðu ekki mjög vel til notkunar upp við gosstöðvarnar og það þurfti að kaupa mikið af búnaði. Sama var með gasmæla þegar eldgosið var í Holuhrauni; menn uppgötvuðu að engir færanlegir gasmælar væru til. Í dag er sem betur fer búið að kaupa slatta af gasmælum, t.d. af sjálfboðaliðum, en Slysavarnafélagið Landsbjörg á nokkuð af mælum sem það keypti til að tryggja öryggi viðbragðsaðila.

Við á Alþingi megum ekki bara segja hæstv. forsætisráðherra að gera eitthvað heldur þurfum við líka að taka þátt. Við þurfum að tryggja fjármagn sem þarf til að geta framkvæmt þessa hluti. Við þurfum líka að vera dugleg við að taka á móti lagabreytingum sem eru lagðar til. Við þurfum að hugsa svolítið út í hvort það sé eitthvað sem við getum sett í lög núna til að þurfa ekki að taka neyðarákvarðanir á krísutímum.

Að lokum langar mig að segja: Við þurfum líka að æfa okkur. Þar koma skrifborðsæfingar og annað slíkt að gagni eins og við þekkjum úr hamförum. Þetta þurfum við að gera fyrir allar krísurnar. (Forseti hringir.) Því þarf hæstv. forsætisráðherra að æfa sig í að taka ákvarðanir og æfa sig í að hafa samband við erlenda aðila til að fá aðstoð.