Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur lögreglan á Suðurnesjum stigið fram í Morgunblaðinu í morgun og greint frá álagi sem er á lögregluliðið vegna fjölgunar hælisleitenda. Lögregluna skortir sérúrræði og verkfæri til að koma í veg fyrir að alþjóðlegir glæpahringir nýti sér neyð fólks. Birtingarmyndin er fjöldi burðardýra í hópi hælisleitenda sem teknir eru með lyf innvortis. Það tengist skipulagðri glæpastarfsemi og mansali á Íslandi og erlendis. Fólkið er ofurselt glæpahringjum sem hafa grafið um sig hér á landi.

Virðulegi forseti. Frá áramótum hafa 650 manns með vegabréfi frá Venesúela sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Margir hafa tengingu við Sýrland og tala ekki móðurmálið spænsku. Engu að síður fær það fólk flýtimeðferð og hæstu mögulegu bætur. Hælisleitendakerfið er byggt á grundvelli flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Við þurfum að búa svo um hnútana að það sé ekki misnotað en framkvæmdin er nánast stjórnlaus. Er ekki vilji til þess hér að við samræmum löggjöfina við önnur Evrópulönd til að tryggja að við séum ekki að taka á móti hælisleitendum sem þegar hafa fengið vernd í öðrum löndum? Þarf ekki að fara saman hljóð og mynd í málefnum hælisleitenda á Íslandi og Evrópu? Sérreglur á Íslandi og draumur um opin og frjáls landamæri er fjarri þeim raunveruleika sem heilbrigðis-, mennta-, félags- og íbúðakerfið á Íslandi þolir.

Virðulegi forseti. Álag á lögreglu á Suðurnesjum vegna hælisleitenda og burðardýra eiturlyfja á vegum glæpahópa er óbærilegur heimatilbúinn vandi. Ég óttast að ef við grípum ekki til nauðsynlegra ráðstafana þá gröfum við undan getu og möguleikum okkar til að standa undir alþjóðlegum skuldbindingum okkar um að veita fólki á flótta vernd og nauðsynlega þjónustu.