Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

yfirlýsing um neyðarástand í loftslagsmálum.

21. mál
[16:50]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta reddast. Þetta hlýtur að reddast. Ætli þetta reddist? Þetta var samantekt á loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Við sem höfum starfað við viðbrögð við hamförum höfum fyrir löngu tekið eftir því að það er komið neyðarástand. Veðurtengdar hamfarir hafa þrefaldast á síðustu 30 árum og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að einungis á næstu átta árum, það er fram til 2030, muni þurfa að fimmfalda eða tífalda þá upphæð sem fer í mannúðaraðstoð vegna loftslagsbreytinga. Það er ekki nóg að tala bara um hækkandi meðalhita, 1,5 eða 2°, því við erum líka að sjá öfgarnar í veðrinu breytast. Á undanförnum mánuðum höfum við séð hitamet falla víða um heim og hitastig fara upp í eða yfir 50°C, ekki langt frá okkur í Evrópu, einnig á Indlandi og í Pakistan, og á mörgum stöðum er tíðni þurrka orðin há. Þurrkar sem áður gerðust á 20 til 30 ára fresti verða nú á tveggja til þriggja ára fresti eins og við sjáum t.d. í Austur-Afríku þar sem við vorum með mikla þurrka 2017, 2019 og nú aftur 2022. En það er ekki bara í Afríku heldur víða um heim.

Í Bandaríkjunum hafa verið miklir þurrkar. Í Evrópu hafa verið miklir þurrkar og í Mið-Ameríku hefur verið stór uppskerubrestur vegna þurrka. Þessu er ekki alveg jafnt skipt, vegna þess að jafnvel á þeim stöðum þar sem þurrkar hafa verið sjáum við líka aukna úrkomu. Þetta hefur leitt til flóða víða um heim. En úrkoman er ekki bara rigning heldur líka snjór og á mörgum stöðum í heiminum síðasta vetur sáum við mestu vetrarhörkur í manna minnum. Við sjáum einnig aukna tíðni og styrk fellibylja. Þeir eru að koma á nýja staði sem hafa ekki fengið fellibylji áður. Við sáum fyrir nokkrum vikum fellibyl fara yfir Kanada en ég fékk líka að sjá fellibyl með eigin augum árið 2019, þegar ég fór til Mósambík í Suður-Afríku, sem hafði einu sinni fengið fellibyl áður, 1970, og þótti mjög óvenjulegt. En þarna í mars 2019 komu fellibyljirnir Idai og Kenneth tvisvar. Það komu tveir fellibyljir í sama mánuðinum á stað sem á 50 árum þar á undan hafði einu sinni fengið fellibyl. Á sama tíma sjáum við líka fellibylji leggja í eyði heilu eyjarnar eins og Púertó Ríkó og ýmsar smærri eyjar í Karíbahafinu og bara nú fyrir nokkrum dögum fór einn öflugasti fellibylur sem um getur yfir Flórída. Já, tíðnin er að aukast, styrkurinn er að aukast. Á sama tíma eru jöklar að bráðna, ekki bara hér á Íslandi heldur eru fjölmörg dæmi úr Himalajafjöllunum um að jöklar hafi verið að bráðna, vatnið hefur verið að safnast upp í uppistöðulón sem síðan bresta og skapa hamfaraflóð niður dalina sem fyrir eru. Á síðustu þremur árum höfum við líka upplifað fimm stærstu gróður- og skógarelda frá því að byrjað var að halda utan um slíkt. Við höfum séð stór svæði í Ástralíu og Bandaríkjunum verða að ösku einni.

Ég nefndi áðan úrkomuna og það að jöklarnir bráðna. Af þeim sökum erum við að sjá stór og mikil flóð í löndum eins og Pakistan þar sem við Íslendingar eigum einmitt hjálparstarfsmenn þessa stundina en líka í Indlandi og Bangladess. Flóð sem áður fyrr voru kölluð 100 ára flóð en gerast nú á tíu ára fresti eða skemur. Hamfarirnar gerast víða. Við sjáum líka sífrerann byrjaðan að þiðna víða um heim og við þurfum ekki að leita langt yfir skammt þó svo að stærstu svæðin þar sem sífrerinn er að hverfa séu í Síberíu. Þá höfum við einnig séð hvaða áhrif þetta hefur, t.d. í nágrannalandi eins og Noregi þar sem stórar aurskriður hafa grandað heilu hverfunum. Já, við þurfum ekki að líta til útlanda vegna þess að sífreri sem var að hverfa orsakaði einmitt mikið aurflóð á Seyðisfirði. Rætt hefur verið um að það sé fjöldi staða hér á landi þar sem við getum búist við stórum aurskriðum, jafnvel á íbúabyggðir, ef sífrerinn hverfur við hækkandi hitastig.

En skiptir þetta einhverju máli þegar allt þetta gerist í útlöndum? Er það kannski ekki eitthvað smávegis á Seyðisfirði? Við megum ekki gleyma því að ein af okkar stærstu auðlindum er hafið í kringum okkur og eitt af því sem er að gerast vegna hlýnunar og breytingar á loftslagi er að sjórinn er bæði að hlýna og súrna. Það getur haft mikil áhrif á það hvar fiskar halda sig og hvert þeir ganga. Við höfum séð jákvæða þróun, t.d. makrílinn og annað sem er að koma inn í lögsögu okkar. En hvað gerum við ef þorskurinn hættir að koma í okkar lögsögu af því að við gerðum ekki nægilega mikið til þess að bregðast við loftslagsvánni?

Frú forseti. Þetta reddast ekki bara. Það er löngu komið neyðarástand og við þurfum að opna augun og fara að gera eitthvað af viti.