Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér í dag fyrir þingsályktunartillögu um fjarvinnustefnu. Með mér á þessu máli eru hv. þm. Guðbrandur Einarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Sigmar Guðmundsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Jakob Frímann Magnússon, Logi Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Tillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að gera úttekt á tækifærum í fjarvinnu og fjarvinnustefnu fyrir íslenskan vinnumarkað. Ráðherra láti vinna tillögur með það að markmiði að auka möguleika á fjarvinnu þar sem henni verður komið við og þar sem áhugi er fyrir hendi. Ráðherra ljúki úttekt fyrir árslok 2023 og kynni aðgerðir fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2024.“

Ástæða þess að ég legg fram þetta mál er kannski að ég, eins og svo margir, upplifði ákveðna breytingu á tímum heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða. Þá jókst fjarvinna til mikilla muna á íslenskum vinnumarkaði, reynslan var almennt jákvæð og það er mikill áhugi á auknu valfrelsi í þessum efnum. Því er ég ekki að tala fyrir því að innleiða einhverjar kerfislægar breytingar heldur einfaldlega að þar sem við á og áhugi er fyrir hendi verði þessi valkostur nýttur betur en gert er í dag. Heimsfaraldurinn leiddi af sér nýja hugsun og jók skilning á því að fólk geti sinnt sama starfinu á ólíkum starfsstöðvum þegar heimilið varð óvænt vinnustaður margra. Fjarvinna felur að mínu viti í sér marga góða kosti. Hún getur haft jákvæð áhrif á jafnvægi vinnu og einkalífs og mér finnst mikilvægt í þessu sambandi að hún er til þess fallin að auka tækifæri íbúa landsbyggðanna. Fjarvinnustefnan getur líka leitt til sveigjanlegra vinnuumhverfis. Hún hefur sannarlega jákvæð áhrif á samgöngur og umferðarþunga og getur þannig stutt við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum, og mér finnst skemmtilegt að ég sé að mæla fyrir þessu máli í kjölfar umræðunnar sem við áttum hér strax á undan. Aukin áhersla á fjarvinnu og störf án staðsetningar leiðir til þess að það verður hægt í auknum mæli að stunda vinnu óháð búsetu. Þetta er atriði sem skiptir máli í ljósi þess að stjórnsýslan í okkar fámenna landi er auðvitað að stórum hluta staðsett í höfuðborginni.

Við munum kannski eftir því í heimsfaraldrinum og sóttvarnatakmörkununum að hafa ekið eða setið í strætó á leið til vinnu og séð hversu áberandi færri voru í umferðinni. Fólk var enn að störfum en fólk ferðaðist ekki samtímis til og frá vinnu og þess vegna mætti með markvissri fjarvinnustefnu af hálfu hins opinbera bæði draga úr umferðarþunga og bæta samgöngur á álagstímum í þéttbýlustu svæðum landsins. Fjarvinnustefnan getur þannig stutt við önnur metnaðarfull markmið stjórnvalda. Markmiðið er einfaldlega að gera úttekt á kostum, tækifærum og lærdómnum sem felst í fjarvinnu og markvissri fjarvinnustefnu, að það verði teknar saman upplýsingar og gögn um þessa reynslu sem varð til og settar fram tillögur með það að leiðarljósi að auka hlut fjarvinnunnar þar sem því verður komið við, sem er auðvitað ekki alls staðar, og greind verði áhrif aukinnar fjarvinnu á fólk búsett í byggðum landsins og á samdrátt í kolefnislosun. Áhrifin á jafnvægi milli atvinnu og einkalífs verða greind og ráðherra gerir síðan tillögur í kjölfarið.

Frú forseti. Meðan á heimsfaraldrinum stóð voru allt að 37% starfsfólks í Evrópu í fjarvinnu. Á sama tíma var hlutfallið hins vegar umtalsvert hærra í Finnlandi þar sem það fór í 59%. Ástæðan er sú að Finnland hefur verið leiðandi í þeirri hugmyndafræði að hvetja til fjarvinnu. Það er vegna þess að umgjörð og innviðir þar í landi eru hliðholl fjarvinnu. Því langar mig aðeins að fjalla um reynslu Finna í þessu samhengi. Árið 2019, fyrir heimsfaraldur, var Finnland með eitt hæsta hlutfall starfsfólks í fjarvinnu meðal Evrópuríkja. Samkvæmt Eurostat 2020 var hlutfall starfsfólks sem vann reglulega í fjarvinnu um 14% þar í landi en í öðrum Evrópuríkjum var hlutfallið umtalsvert lægra eða rétt rúmlega 5%. Þegar litið var til þess hversu margir unnu að hluta í fjarvinnu reyndist þetta hlutfall vera 25% í Finnlandi. Margt í Finnlandi styður við þessa þróun og er þetta afleiðing þess.

Finnar eru framarlega í stafrænni tækni og það er staðreynd að sterkir stafrænir innviðir þar í landi hafa þótt vera lykilþáttur í því háa hlutfalli starfsfólks sem vinnur fjarvinnu. Finnland hefur notið góðs af því að aðstæður þar í landi hafa þótt henta vel til fjarvinnu vegna þess að þjóðin er framarlega á sviði stafrænnar tækni og þekkingar. Atvinnumarkaðurinn sjálfur og samsetning starfa er þannig að hátt hlutfall starfa hentar til fjarvinnu. Það er auðvitað augljóst að misjafnt er eftir störfum hvort svo sé en stofnanaumgjörðin í Finnlandi er hliðholl þessu fyrirkomulagi.

Það má nefna að íslensk stjórnvöld hafa lagt aukna áherslu á þátt nýsköpunar en í Finnlandi er hátt hlutfall starfsfólks í þekkingar- og upplýsingageiranum. Því ætti áhersla á fjarvinnu að fylgja með aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á nýsköpun, enda er það liður í að halda í og sækja starfsfólk óháð staðsetningu. Þetta er að mínu viti liður í að sækja fram á sviði nýsköpunar. Ég vil ramma þetta inn; ég nefni hér nýsköpun, loftslagsmarkmiðin, áhrif á samgöngur, valfrelsi og sveigjanleika. Allt eru þetta breytur sem haldast í hendur við fjarvinnu.

Í Finnlandi hefur verið nefnt að tiltölulega hátt hlutfall starfsfólks starfi í stórum fyrirtækjum eða stofnunum og stærð fyrirtækjanna geti haft jákvæð áhrif að þessu leyti. Ég tel að það væri áhugavert að fá úttekt sem lýtur að því að þetta fyrirkomulag geti ekki síður hentað litlum og meðalstórum stofnunum. Það getur verið kostur fyrir smærri einingar að búa við þennan sveigjanleika og aftur vil ég nefna byggðasjónarmiðin og aukin tækifæri og aðgengi að störfum fyrir fólk utan höfuðborgarinnar. Ég tel þetta vera ákveðið jafnréttismál fyrir íbúa landsbyggðanna.

Í Finnlandi hefur þetta verið rauður þráður í skrefum sem löggjafinn hefur stigið í langan tíma. Sveigjanlegur vinnutími var lögfestur í Finnlandi árið 1996. Árið 2011 voru Finnar mjög leiðandi í sveigjanlegum vinnutíma en könnun leiddi í ljós að þá buðu 92% fyrirtækja upp á sveigjanlegan vinnutíma. Ein og sér er þessi aðgerð auðvitað mjög stór og mikilvæg breyta í átt að því að koma til móts við fjölskyldur og foreldra ungra barna á vinnumarkaði. Við þekkjum öll, sem verið höfum í þeim sporum, að vera í fullu starfi samhliða því að annast lítil börn. Í mars 2019 var frumvarp samþykkt þar í landi sem varð að lögum í ársbyrjun 2020. Þar var innleiddur enn frekari sveigjanleiki þannig að starfsfólk sem var í fullu starfi hafði rétt á því samkvæmt lögum að skipuleggja helming vinnutíma síns eftir því hvar og hvenær sú vinna væri innt af hendi. Þetta finnst mér vera mjög áhugaverður punktur.

Ég vil nefna að þótt við berum flest kannski mátulega jákvæðar tilfinningar til þess lífs og mynsturs sem heimsfaraldur og sóttvarnatakmarkanir færðu okkur, þá var þetta stór breyting sem mörgum hugnaðist vel. Í könnun sem gerð var í júlí 2020 lýstu 78% starfsfólks á evrópskum vinnumarkaði því yfir að þau myndu gjarnan kjósa vinna áfram í fjarvinnu — að einhverju leyti — það held ég að sé lykilpunktur. Í Finnlandi leiddi könnunin í ljós ánægju með fjarvinnu og áhrif hennar. Þar komu fram þættir eins og einbeiting, framleiðni, jafnvægi milli fjölskyldu og einkalífs en líka að þrátt fyrir jákvæða reynslu af fjarvinnunni hefðu komið fram sjónarmið um kosti þess að snúa aftur á vinnustað. Ég held að það sé tilfinning sem við tengjum mörg við, þessir félagslegu þættir vinnunnar á borð við samskipti við vinnufélaga sem ekki fara fram í gegnum Teams eða hvað öll þessi forrit heita. Aftur vil ég ítreka að þetta er fyrirkomulag sem sannarlega hentar sumum störfum en öðrum alls ekki, jafnvel heilu starfsgreinunum, en einnig hentar fyrirkomulagið sumu fólki en öðru ekki. Mörg kjósa að eiga kost á fjarvinnu að hluta, eins og ég talaði um áðan, í stað þess að vinna eingöngu utan skilgreindrar starfsstöðvar. Því er þetta í mínum huga ekki spurning um annaðhvort eða, heldur samspil þess að vinna á starfsstöð og svo annars staðar og þarf sá staður ekki að vera heima í eldhúsi. Ég á sjálf minningu sem mér finnst dálítið brosleg eftir á, um að hafa verið í kjördæmaviku við eldhúsborðið heima í Smáíbúðahverfinu og ferðast um allt landið. Það gekk upp en auðvitað hefði eiginleg kjördæmavika alltaf skilað betri árangri.

Aftur að Finnunum. Þeir hafa reynst vera fyrirmynd annarra Evrópuríkja og 5. júlí síðastliðinn samþykkti neðri deild hollenska þingsins frumvarp til breytinga á lögum um aukinn sveigjanleika í starfi. Þar í landi er þetta kallað val um starfsstöð, sem kveður á um að launþegar í Hollandi njóti réttar til að vinna heima eða utan vinnustaðar nema í þeim tilvikum að það sé andstætt hagsmunum starfseminnar sem á í hlut. Þarna er einnig verið að stíga ákveðin skref.

Í Bretlandi hafa lög verið í gildi frá 2014 sem útfæra ákveðnar reglur í þessu sambandi og eru þær raktar í greinargerð með þessu máli. Síðast en ekki síst þá samþykkti þing Evrópusambandsins í apríl 2019 tilskipun um jafnvægi á milli vinnu og einkalífs sem felur m.a. í sér að starfsmenn eiga rétt á að óska eftir sveigjanleika í vinnu í þeim tilvikum þar sem þeir eru með barn eða börn á framfæri á ákveðnu aldursbili undir átta ára aldri, sem er sama viðmið og við erum með í lögum okkar um foreldraorlof svokallað. Aðildarríki Evrópusambandsins fengu þriggja ára svigrúm til að innleiða tilskipunina í landslög og það eru ríki farin að gera, en þessar reglur ganga skemur en þær sem ég hef lýst í Finnlandi, Hollandi og Bretlandi. En eftir stendur að þegar þær hafa verið innleiddar í Evrópusambandinu verður réttur starfsmanna í þessum efnum þó sennilega ríkari en á Íslandi.

Að lokum vil ég nefna að ekkert er svart og hvítt. Ég mæli fyrir þessu máli vegna þeirra jákvæðu breytinga eða afleiðinga sem málið getur haft en auðvitað er engin ein lausn sem á við um vinnumarkaðinn allan. Ég vék að því í byrjun að stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þessi aðgerð styður við þau. Þetta getur haft jákvæð áhrif eins og við sjáum t.d. í Finnlandi, þar liggja einfaldlega fyrir mælingar um það hvaða áhrif þetta hafði á akstur. Loks, af því að ég hef talað svo mikið út frá starfsfólki, þá hafa vinnuveitendur þar í landi talið þessa leið hafa gefið góða raun og eru þar nefndar breytur eins og framleiðni og sveigjanleiki sem leiðir til aukinnar starfsánægju og er það augljós kostur fyrir atvinnurekendur alla. (Forseti hringir.) Nú er ég búin að fara yfir helstu kosti og hlakka til að sjá málið fara til umfjöllunar í hæstv. velferðarnefnd.