Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

fjarvinnustefna.

213. mál
[17:15]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara lýsa ánægju minni með þessa tillögu og fagna því að hún sé komin fram. Það er rétt, sem hefur komið fram hjá ræðumanni og flutningsmönnum tillögunnar, að við sjáum mörg jákvæð teikn sem hafa komið upp hvað varðar fjarvinnu eftir Covid. Það er jákvætt þetta val sem sett er fram, að fólk hafi val og vinnuveitendur hafi val um það hvort fjarvinna sé til staðar.

Ástæða þess að ég kem hér upp er sú að heimabærinn minn er í klukkutímafjarlægð frá Reykjavík. Þar búa um 8.000 manns og 30% þeirra, samkvæmt greiningu, fara dag hvern til Reykjavíkur, annaðhvort í skóla eða til vinnu, og þá er ég að tala um þá sem eru á vinnufærum aldri. Á Akranesi var stofnað Breið þróunarfélag, sem er samvinnurými fyrir fjölda aðila sem eru þar í fjarvinnu. Þannig að mig langar að spyrja hvort um leið verði gerð greining á því hvar samvinnurými séu til staðar og hvort hægt sé að nýta þau samhliða því að fjarvinna sé í boði.