Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 13. fundur,  12. okt. 2022.

breyting á lögum um tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda.

18. mál
[19:00]
Horfa

Flm. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

JVirðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er eins og hann sjálfur að leggja fram mitt mál og okkar þingmanna og ég vona sannarlega að þingheimur verði okkur sammála og afgreiði málið. Hann vísaði til þess að ríkisstjórnin gerði þetta en við erum hér sem þingmenn að leggja fram mál. Þetta er okkar mál, mitt og þeirra sem að málinu standa. En ég að sjálfsögðu tek undir að það er mjög mikilvægt að um þetta verði fjallað í efnahags- og viðskiptanefnd og ég er ekki sannfærð um að þetta gangi í gegnum tekjubandorminn en ætla þó ekki að fullyrða það að ég kunni lögin upp á tíu og útiloka að slíkt geti gerst. En ég tel þó svo vera að það eigi kannski ekki heima þar sem þetta er sértæk breyting á lögum um reiknað endurgjald og útvíkkun á því sem þar er undir. En hv. þingmaður situr í nefndinni, ef ég man rétt, og það er í rauninni, tel ég, undir honum komið að velta því upp í nefndinni hvort hann telur ástæðu til þess að taka þetta þar fyrir eða hvort það gangi hreinlega upp að málið fari í gegnum tekjubandorminn. Ég fylgi mínu máli eftir og vona að sá eða sú sem tekur það að sér í nefndinni geri það svo sannarlega líka.