Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 14. fundur,  13. okt. 2022.

mannréttindi sjálfræðissviptra.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get algerlega fullvissað hv. þingmann um að mannréttindi allra hópa eru alltaf til umræðu í forsætisráðuneytinu. Þar eru unnið núna að kortlagningu á stöðu mannréttinda hér á landi, útgáfa grænbókar er fram undan og sú stefnumótun verður grunnurinn að stofnun nýrrar sjálfstæðrar mannréttindastofnunar. Hv. þingmaður þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að neinn einstakur hópur verði út undan í þeirri umræðu.

Hvað varðar þau lög sem hv. þingmaður nefnir hér þá heyra þau undir dómsmálaráðherra og ef ég man rétt var sett á laggirnar nefnd undir forystu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, flokksfélaga hv. þingmanns, sem átti einmitt að gera einhverjar tillögur að breytingum. Ég er fús til samtals, bæði við þann þingmann og þann sem hér spyr, um hvert eigi að stefna í þessum málum en það er alveg ljóst, eins og ég met stöðuna, að hér hefur verið ágætissamhljómur um að mikilvægt sé að ráðast í endurskoðun og skerpa á þessum lögum og reglum.