Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[12:41]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna stuðnings við lífskjarasamninga segir orðrétt:

„Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.“

Mér leikur hugur á að vita, vegna þess að hv. þingmaður talar um að að hér sé verið að ganga á samningsfrelsi fólks: Er í hans huga hægt að uppfylla þessi loforð sem voru gefin án þess að raska að einhverju leyti samningsfrelsinu eða reisa ákveðnar skorður við því?

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji unnt að ná þessum markmiðum, hvort hann sé í raun ósammála hæstv. innviðaráðherra um að það sé einhvers konar forsenda fyrir því að ná þessum markmiðum sem þarna er mælt fyrir um að lögfesta skráningarskyldu af einhverju tagi.