153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

fjármögnun málaflokks fatlaðra.

[15:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fram kom í máli hæstv. innviðaráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að þetta kæmi til greina, þ.e. að hækka hlut útsvarsins. Þá var í raun og veru horft til þess að bregðast við þeim vanda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir strax en um leið þyrfti að skoða aðrar leiðir til lengri tíma. Staðreyndin er sú að það er hópur að störfum undir forystu félagsmálaráðherra sem átti að skila af sér frekari greiningu á þeim kostnaði sem fellur á sveitarfélögin vegna málaflokks fatlaðra. Sá hópur átti að skila af sér á haustmánuðum. Það hefur dregist og dregst enn og mun hann líklega ekki skila af sér fyrr en í febrúar. Ég held að allir hv. þingmenn hafi hins vegar kynnst því í kjördæmaviku að sveitarfélögin meta það svo að staðan sé þung og bregðast þurfi við, a.m.k. að einhverju leyti strax fyrir árið 2023. Það er mikilvægt að það komi fram hér, og þess vegna var þetta ekki hluti af fjárlagafrumvarpi, að þessi mál eru enn í vinnslu og hafa ekki farið endanlega í gegnum ríkisstjórn. Ég leyfi mér hins vegar að segja að það er skilningur hjá öllum forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna á að það þurfi að einhverju leyti að mæta sveitarfélögunum vegna málaflokks fatlaðra. Í þeirri greiningu þarf auðvitað ýmislegt að koma til og þess vegna hefur verið rætt um m.a. Jöfnunarsjóðinn, að hann sé nýttur í þessum málum til að tryggja að fjármunirnir nýtist þar sem þeirra er þörf. Einnig þarf að skoða það þegar sveitarfélögin eru ekki að fullnýta sína tekjustofna. Við getum rætt um útsvarsprósentur, við getum líka rætt fasteignagjöld. Við þurfum auðvitað að taka afstöðu til þess hvort þá sé eðlilegt að auknir fjármunir renni til þeirra sveitarfélaga sem hafa kosið að fullnýta ekki sína tekjustofna. Ég hef skýra sýn á það að mér finnst eðlilegt að þeir tekjustofnar séu fullnýttir áður en til frekari fjárveitinga kemur.