153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

málefni fátækra.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið en ég segi bara fyrir mitt leyti: Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Ég hitti tugi fólks, hef verið í stjórn Öryrkjabandalagsins, Þroskahjálpar og Sjálfsbjargar. Sá sem talaði við mig í dag spurði: Hvað á ég að gera? Ég á fyrir húsnæði en ekki meir. Hvert á ég að fara og hvernig á ég að lifa af? Ég hef ekki heyrt því svarað hér. Við vitum að það eru 5.000–6.000 börn í fátækt. Við erum búin að vita það síðan ég kom hingað inn og ég sé ekkert breytast. Við erum rík þjóð og við eigum að geta breytt þessu. Við eigum ekki að þurfa að koma hérna upp ítrekað og segja að það sé verið að gera eitthvað og það sé verið að hjálpa fólki þegar við höfum borðleggjandi dæmi frá Öryrkjabandalaginu, Sjálfsbjörg og öllum öðrum félögum fatlaðra um að það þrengi sífellt meira að.