Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Þegar talað er um stöðu mála á landamærum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda verðum við að muna að það er stríð í Evrópu. Öll Evrópulönd eru að taka við flóttamönnum frá Úkraínu. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu hafa sjö milljónir Úkraínumanna flúið heimili sín. Þetta er stóra talan af því fólki sem kemur hingað og sækir um alþjóðlega vernd. Mér finnst að við eigum að bera höfuðið hátt og standa okkur vel í því að taka á móti þessu fólki sem er að flýja skelfilegar aðstæður. Það er hins vegar hræðileg aðstaða í mun fleiri löndum í heiminum því að það geisa hörmuleg stríð víðs vegar um heiminn. Það má nánast segja að því miður sé það ekki nema brotabrot af því fólki sem kemur hingað því að það er svo sannarlega fólk sem þarf einnig á alþjóðlegri vernd að halda, en það eru ekki fjölmennu hóparnir sem við erum að taka á móti akkúrat núna hér á Íslandi. Mér finnst mikilvægt að blanda þess vegna ekki saman ólíkum hlutum. Er einhver sem ætlar að tala fyrir því að við tökum á móti færra fólki frá Úkraínu? Ég held ekki. Ég held að enginn vilji gera það. Það er mikilvægt að halda áfram, eins og við höfum gert frá því að lög voru sett árið 2016 um málefni útlendinga, að byggja á mannúð og byggja á sanngjarnri málsmeðferð. Auðvitað á hún líka að vera skilvirk (Forseti hringir.) en það er mannúðin og sanngjarna málsmeðferðin sem skiptir máli — og að halda augunum á boltanum (Forseti hringir.) sem snýst um að við erum að taka á móti Evrópubúum sem eru að flýja hræðilegt stríð í okkar heimsálfu.