Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni hingað til, þetta er ekki búið enn þá. En mig langar til að koma stuttlega inn á orð hv. þm. Arndísar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur. Hv. þingmaður sagði réttilega að það væru glæpahópar sem væru að misnota kerfið, ekki einstaklingarnir sem hingað koma, hvort sem það eru börn, konur, feður eða hver sem kann að eiga í hlut hverju sinni. Getum við þá ekki einmitt sammælst um að gera kerfið þannig úr garði að það verði erfiðara fyrir glæpahópa að gera sér neyð fólks að féþúfu? Þó að við næðum ekki nema þeim árangri þá er til nokkurs unnið. Gagnrýni mín hefur gengið út á það í þessu samhengi að það sé verið að misnota kerfið af glæpamönnum. Það eru auðvitað þeir sem eru að selja þessar ferðir og meira að segja Evrópusambandið, sem mörgum í þessum sal þykir óbrigðult í skoðunum, er þeirrar skoðunar. Mig minnir að mat Evrópusambandsins sé að hátt í helmingur þess flæðis sem er í gangi hverju sinni sé með einum eða öðrum hætti undirorpið því að glæpagengi hafi þar gert neyð fólks sér að féþúfu.

Örstutt í þessari ræðu minni, ég á lokaræðuna eftir: Bara til að setja áfram tölurnar frá Þýskalandi í samhengi, tölurnar frá 2015 og 2016. Ef miðgildi spár Útlendingastofnunar upp á 4.500 reynist rétt verðum við hér árið 2022 með 66% fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd en Þjóðverjar að meðaltali á árinu 2015 og 2016. Ef spáin um 5.000 rætist verðum við komin upp í 84% af því sem Þjóðverjar tóku inn til sín 2015 og 2016. Það þótti afrek í öllu samhengi í þessum fræðum. Frú Merkel (Forseti hringir.) innleiddi þar svokallaða Open Door Policy, Opnar dyr, og við erum að halla í það að vera með tvöfaldan þann fjölda sem þá kom til Þýskalands, bara til að hafa það í huga.