Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:26]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Það er engin ástæða til að gera lítið úr þeirri áskorun sem fylgir því að hingað leiti hundruð ef ekki þúsundir einstaklinga í leit að stuðningi og vernd gegn stríði og örbirgð. Vandinn er sá að tillögur hæstv. ráðherra leysa engan vanda sem við stöndum frammi fyrir hérlendis — engan.

Hæstv. ráðherra segir flóttamannasamninginn einhvern merkilegasta samning Sameinuðu þjóðanna. Hann segist enn og aftur einfaldlega vilja koma í veg fyrir að hingað komi fólk til að misnota kerfið. Enn er hins vegar óljóst um hvaða einstaklinga hæstv. ráðherra er að tala um. Í viðtölum hefur hann ítrekað nefnt fólk frá Venesúela og kallað þau efnahagslegt flóttafólk, flóttafólkið sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, opinber verndari flóttamannasamningsins, hefur mælt gegn að sé endursent, ekki af efnahagsástæðum heldur vegna þess að atburðir undanfarinna ára hafa raskað allsherjarreglu í landinu og er líf þeirra, öryggi og frelsi í hættu. Ekki er hér um efnahagsástand að ræða heldur viðvarandi hættuástand vegna átaka í landinu. Er þetta fólkið sem ætti frekar að sækja um dvalarleyfi vegna sérfræðistarfa og dunda sér við að reyna það í marga mánuði áður en það kemur til landsins? Reyndar lúta tillögur í frumvarpi hæstv. ráðherra sem betur fer ekki að neinu leyti að þessum hóp, enda geta lög sett af Alþingi ekki gengið gegn alþjóðlegum skuldbindingum okkar um að veita flóttafólki í lífshættu vernd líkt og fleiri hafa bent á hér í dag. Þær áskoranir sem við stöndum raunverulega frammi fyrir og eigum að einbeita okkur að varða innviðina okkar. Fólksflutningar, bæði þvingaðir og frjálsir, munu aukast til muna á næstu árum og ættum við að setja alla þessa orku og milljarða í að byggja upp innviði okkar, landsmönnum öllum til farsældar og heilla, í stað þess að ausa fjármagni í hið mannfjandsamlega og ómögulega verkefni að fæla fólk frá.