Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 17. fundur,  17. okt. 2022.

Staðan á landamærunum með tilliti til aukins fjölda hælisleitenda og afleidd áhrif .

[16:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil þakka hér fyrir þessa umræðu. Mig langar að koma inn á orð tveggja hv. þingmanna áður en ég fer í mín lokaorð. Í fyrsta lagi kom hv. þm. Sigmar Guðmundsson inn á það hér í ræðu sinni að það væri sagður einungis hálfsannleikurinn með þeirri tölfræði sem hér væri reynt að draga fram. Mig langar til að benda á það að hlutfall umsókna hér á landi samanborið við það sem gerist í nágrannalöndum okkar var komið á þann stað sem ég nefndi í ræðu minni áður en stríðið braust út í Úkraínu þannig að þau hlutföll hafa verið með þessum hætti býsna lengi. Það er í rauninni það sem ég tel að gæti orðið okkur til nokkurs gagns, að reyna að átta okkur á hvað veldur vegna þess að það hefur áhrif á það sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom inn á í ræðu sinni á undan þessari, þ.e. að kerfin hér heima eru að bresta þessa dagana. Við heyrum tóninn frá sveitarfélögunum. Við heyrðum frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði fyrir nokkrum vikum síðan að það hefðu verið áætlaðir tveir starfsmenn í ákveðið verkefni sem tengdist samræmdri móttöku, en þeir hefðu endað í 16, áttföldum fjölda. En að því er ég best veit er ekki búið að undirrita nýjan samning. Ég held að það sé sama staða uppi í Keflavík í tengslum við samræmda móttöku. Það sem ég óttast er að við séum að færast of mikið í fang þannig að við á endanum gerum ekki nægjanlega vel við þá sem hafa mesta þörf fyrir aðstoð okkar. Auðvitað verður þessi umræða með einum eða öðrum hætti að vera grundvölluð á hlutföllum. Tölurnar tala sínu máli og við eigum að nálgast málið með þeim hætti, reyna að gera eins vel og við getum fyrir þá sem við ráðum við og gera það almennilega, styðja við aðlögun eða styðja með góðum hætti við þá sem flýja nú stríðsátökin í Úkraínu. En ég minni bara á það að hlutföllin voru orðin þessi samanborið við Skandinavíuþjóðirnar áður en stríðið braust út í Úkraínu.