Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 18. fundur,  17. okt. 2022.

lyfjatengd andlát.

169. mál
[16:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur þessa fyrirspurn um þróun lyfjatengdra andláta hérlendis og um aðgerðir á því sviði. Fyrst vil ég segja að það er rétt sem hér kemur fram hjá hv. þingmanni að það er aukning og ber að taka það mjög alvarlega. Þegar við ræðum slíkt er eitt slíkt andlát einu of mikið. Ef við horfum á tölurnar þá getur fjöldi andláta, eins og það er tekið, á hverja 100.000 íbúa — þá eru þetta lágar tölur þannig að það geta verið sveiflur sem þarf að vitna í. En hér er um aukningu að ræða. Þá spyrjum við okkur: Hvað er að gerast? Hver er þróunin? Hvað er það sem veldur? Því að þetta er sterk vísbending um aukningu? Það er erfitt að fullyrða hvort það sé eingöngu ópíóíðafaraldur. Það þarf aðeins að kafa betur í þetta. Það er rétt að þeir aðilar sem sinna meðferðum og sinna veiku fólki á þessu sviði tala um aukningu þar. En það er hins vegar um mjög blandaða lyfjaneyslu að ræða samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Það er erfitt að taka einn lyfjaflokk út í sýnum, þá greinast ávísunarskyld svefnlyf og róandi lyf, sterk verkjalyf og örvandi lyf ásamt neyslu löglegra og ólöglegra ávana- og fíkniefna í bland við ólöglega innflutt lyf sem eru skráð erlendis en ekki hérlendis. Því er um mjög blandaða neyslu að ræða. Það er því erfitt að ráða í slíkar tölur úr gagnagrunni þegar kemur að ávísun á sterk verkjalyf, en notkun svefn- og róandi lyfja hefur aukist lítillega. Við þurfum því að leita frekari skýringa.

Hins vegar er mjög brýnt að hlusta á þá sem þekkja vel til málaflokksins. Ég vil draga fram mjög mikilvæga viðbót þegar kemur að skaðaminnkandi úrræðum, þ.e. gjaldfrjálst aðgengi að Naloxone-nefúða um allt land í samvinnu við fíknigeðdeild Landspítala og apótek Landspítala til að bregðast við öndunarneyð af völdum ofskömmtunar ópíóíða. Þar björgum við mannslífum alveg klárlega. Skaðaminnkunarverkefnið Ragnheiður býður jafnframt upp á gjaldfrjálst aðgengi að nefúðanum og þá er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu búin úðanum auk fleiri úrræða fyrir þennan viðkvæma hóp. Unnið er að frekari dreifingu nefúðans um allt land og jafnframt að aðgengi sé að þessum úða þegar brýnt er. Fyrir utan mikilvægi aðgengis að meðferðum vil ég nefna að hv. fjárlaganefnd lagði til 30 milljónir til að leggja baráttunni lið gegn þessum vágesti. Það er tímabundið framlag til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Þar munum við horfa til verkefna sem tengjast skaðaminnkun og verkefna sem tengjast forvörnum og styðja við félagasamtök á því sviði því að við þurfum öll að taka saman höndum í þessari baráttu.