Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

Störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Síðastliðinn júnímánuð fór ég til Úkraínu ásamt sendinefnd Evrópuráðsþingsins, sem var undirnefnd laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, til að kanna rétt viðbrögð við stríðsglæpum, glæpum gegn mannkyni sem rússneskar hersveitir fremja í Úkraínu. Í ferð okkar heimsóttum við höfuðborg Úkraínu, Kænugarð, og fórum líka til Bútsja og Irpin. Í Bútsja stóðum við við fjöldagröf sem íbúar höfðu þurft að grafa fyrir vini sína, nágranna og samborgara vegna þess að lík þeirra lágu á víðavangi svo dögum og vikum skipti eftir að rússneskir hermenn höfðu skotið þá af handahófi, opnar hendur bundnar fyrir aftan bak. Þetta var eitt svæði sem hafði verið frelsað undan hernámi rússneska hersins eftir allsherjarinnrás rússneskra hersveita í Úkraínu — eitt lítið svæði. Í Irpin sáum við hvernig eldflaugar höfðu eyðilagt meira en helming ef ekki 70% allra mannvirkja á svæðinu. Þá gilti einu hvort um mannvirki eins og íbúðarblokkir, skóla, leikskóla eða annað væri að ræða.

Hermennirnir sem stóðu að voðaverkunum í Bútsja sem við ræddum hérna áðan, þeim sem var stökkt á flótta af úkraínsku hersveitum, voru að lokum verðlaunaðir með orðum og stöðuhækkunum þegar þeir komu heim til Rússlands. Refsileysið sem gildir gagnvart stríðsglæpum og stríðsglæpamönnum í Rússlandi er einn meginorsakavaldur þess að ég tel það vera stefnu rússneskra stjórnvalda að stunda stríðsglæpi í Úkraínu. (Forseti hringir.) Við verðum öll að leggjast á árar til að vinna gegn refsileysinu og koma þessum stríðsglæpamönnum fyrir dóm.