Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

félagafrelsi á vinnumarkaði.

24. mál
[17:34]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Nú er það tiltölulega óumdeilt í þeim fræðiskrifum sem liggja fyrir að það er tvennt öðru fremur sem hefur lagt grundvöll að sterkri verkalýðshreyfingu á Íslandi og þessari metþátttöku, metfélagsaðild sem við búum að og það er annars vegar þessi greiðsluskylda sem hér er til umræðu og hins vegar forgangsréttarákvæðið. Þetta er eitthvað sem ég hygg að flestir sem hafa ritað um þessi mál og rannsakað séu á einu máli um.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann að það sé ekkert samhengi milli þessarar metþátttöku í stéttarfélögum annars vegar, sem á sér m.a. rætur í þessu fyrirkomulagi sem við erum að ræða hér í dag, og hins vegar þeirrar kaupmáttaraukningar sem við höfum séð á undanförnum árum? Getur ekki einmitt verið að það sé tiltölulega skýrt orsakasamband þarna á milli, að launafólk á Íslandi hafi það býsna gott vegna þess að við erum með sterka verkalýðshreyfingu sem byggir á þessari metaðild sem grundvallast einmitt á þessu fyrirkomulagi sem svo breið sátt er um, en þingmenn og nú formaður Sjálfstæðisflokksins og sjálfur hæstv. fjármálaráðherra vilja kollvarpa?