Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

273. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég svolítið hræddur um að ég gefi framsóknarlegt svar eins og hefur stundum verið veitt í þessum stól. Ég held að það séu kostir og gallar sem fylgja báðum leiðum. En á meðan ákveðin sátt ríkir, og ég hef aldrei séð þingmál um eitthvað annað en að viðhalda því fyrirkomulagi sem við búum við í þessum efnum, þá held ég að sé gríðarlega mikilvægt að fylgja þeim lögum, reglum, prinsippum og sjónarmiðum sem búa að baki þegar skipað er í æðstu faglegu embætti embættismannakerfisins. Eins og hv. þingmaður fór hér yfir þá hefur verið gengið ansi langt í því að toga og teygja þessi ákvæði. Ég held t.d. að það gleymist stundum að ráðherrar eru auðvitað bundnir af skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Þegar verið er að fara fram hjá svona meginreglu um auglýsingaskyldu þá verður að fara fram einhvers konar mat, verður að rannsaka sérstaklega hvaða kostir eru í boði og ráðherrar hljóta áfram að vera bundnir af þeim reglum að hæfasti einstaklingur skuli fá starfið. Þegar ekkert umsóknarferli á sér stað er auðvitað ofboðslega erfitt að sýna fram á það. Vandinn er náttúrlega líka að þegar verið er að fara fram hjá auglýsingaskyldunni þá er enginn með lögvarða hagsmuni til að leita réttar síns og fá úr því skorið hvort farið hafi verið rétt að. Það eru þess vegna svo margir vankantar á þessu eins og þetta er gert núna þar sem við erum með ákveðið fyrirkomulag þar sem er gert ráð fyrir faglegum ráðningum þegar kemur að æðstu faglegu embættum stjórnsýslunnar, (Forseti hringir.) en í raun er stöðugt farið einhvern veginn í kringum það með því að líta á undantekningarákvæði sem einhverja almenna hjáleið.