Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

273. mál
[18:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir einstaklega framsóknarlegt svar. Ég heyrði ekki alveg alla framsöguræðu þingmannsins en það sem einmitt hefur vakið upp ákveðnar áhyggjur varðandi þessi undanþáguákvæði er hversu mikið þeim er beitt og hversu víðtækar undanþágurnar eru í framkvæmd. Það gerir það að verkum að hætta skapast á ákveðinni keðjuverkun í stjórnsýslunni sem leiðir til þess að einstaklingur nær upp í æðstu embætti án þess í rauninni að fara nokkurn tíma í gegnum þetta ferli sem lögin og kerfið gera ráð fyrir til að tryggja faglega ráðningu í stöður. Mér finnst svolítið leitt að þetta mál og umræðan skuli hafa náð svona langt fram á kvöld og það séu svona fáir eftir í salnum. Mér finnst þetta áhugaverð umræða og hefði gjarnan viljað sjá og heyra afstöðu fleiri þingmanna til hennar, því þetta er í rauninni ákveðin prinsippumræða sem við eigum hérna sem hefur verið vakin á síðustu misserum. Ég held að almenningur deili áhyggjum hv. þingmanns af beitingu þessara ákvæða og því fyrirkomulagi sem við erum í raun komin með hérna í dag.

Ég er kannski ekki með frekari spurningar til hv. þingmanns þar sem ég fengi kannski álíka framsóknarlegt svar við frekari spurningum í þessa áttina. En ég styð þetta mál og væri til í að sjá þessa umræðu tekna lengra hér á þinginu, undir hvaða dagskrárlið sem það væri.