Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 19. fundur,  18. okt. 2022.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

273. mál
[18:58]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir sitt ágæta frumvarp. Ég hef mikinn áhuga á starfsmannalögum og hvernig við höfum haldið utan um þennan ramma í gegnum árin. Það sem ég hef áhuga á er að ég held að allar okkar ákvarðanir í gegnum tíðina séu bæði gerðar af góðum hug og vilja til að gera það sem er rétt og skynsamlegt, en líka af dálitlum ótta til varnar spillingu eða einhverju slíku. Mögulega höfum við þá endað uppi með kerfi sem hefur líka sína galla, sem voru kannski ekki endilega fyrirséðir eða þóttu bara veigaminni, og ég ætla engan veginn að gerast dómari í því. Í heild er þetta umræða sem ég held að við ættum að taka alvarlega. Frumvarpið er viðleitni til þess og ég fagna því.

Mig langar að halda svolítinn ræðustúf um alls konar varðandi starfsmannalögin. Ég ætla að hemja mig og skal halda mig við þetta frumvarp. Mig langar að spyrja hv. þingmann í mínu fyrra andsvari varðandi það að engar undanþágur séu frá frumvarpinu eins og ég skil það, að það verði í öllum tilfellum að auglýsa. Ég er sammála því prinsippi, bara svo það sé algjörlega skýrt. Ég held að það fari betur á því að þetta sé auglýst. Mig langar að fá að spyrja um það sem gerist í mannheimum því t.d. lenti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í því að búa til ráðuneyti en það var ekki orðið til og því gat hún ekki auglýst. Er eitthvað í frumvarpinu sem gerir ráð fyrir svigrúmi í mannheimum til að bregðast við ófyrirsjáanlegum aðstæðum?