Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vandinn við skort á þjónustu er ekki á ábyrgð þess sem þarf þjónustuna heldur þess sem á að veita þjónustuna. Þannig er vandinn sem talað er um að sé í heilbrigðiskerfinu ekki vegna þeirra sem eru sjúkir, vandinn í þjónustu við fatlað fólk ekki vegna þeirra sem eru með fötlun né vandinn á landamærunum vegna þeirra sem þurfa að fara um landamærin. Vandinn sem blasir við okkur er vegna ríkisstjórnar Íslands sem velur að vanfjármagna innviði okkar. Þannig hefur umræða síðustu vikna snúið að því að vandinn á landamærunum sé vegna þeirra sem þangað koma og óska verndar en á með réttu að snúa að því að ríkisstjórnin hefur ekki tryggt nægan mannafla til að annast þá öryggisþætti sem þarf á landamærum hringinn í kringum landið.

Áður en hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um landamæri hefði hann fyrst átt að leggja til við hæstv. fjármálaráðherra að fjármagna nauðsynlega löggæslu í landinu. Lögreglan annast landamæravörslu en það er henni ómögulegt vegna undirmönnunar. Færri lögreglumenn eru að störfum í dag en árið 2007. Á fimm flugvöllum og 25 höfnum landsins ber lögreglan ábyrgð. Fjöldi ferðafólks hefur margfaldast undanfarinn áratug sem þýðir umtalsvert álag á landamærum. Og það er ekki bara í Keflavík, þótt mest mæði þar á, heldur þarf líka að vakta hafnir sem hafa tekið á móti nærri 700.000 ferðamönnum og áhöfnum á þessu ári og ferðafólk með flugi er nærri 1.300.000 fyrstu níu mánuði ársins.

Virðulegur forseti. Það er ekki fólk sem óskar eftir þjónustu eða vernd sem skapar hættu á Íslandi í dag heldur ríkisstjórn sem ákveður að tryggja ekki nauðsynlegt öryggi okkar og velferð.