Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Góðar almenningssamgöngur skipta máli og það segir sig sjálft að þegar stórir hópar ferðast á sama tíma milli sömu staða þá er hagkvæmast að samnýta ferðir. Það dregur úr umferð og mengun. Þessar aðstæður skapast alla virka morgna þegar fólk fer í vinnu og síðan aftur síðdegis þegar það fer heim á leið og sömuleiðis í miðbænum um helgar þegar allir eru á leiðinni heim eftir að hafa skemmt sér á öldurhúsum borgarinnar eða bæjanna sem um ræðir. Þjóðhagsleg arðbærni almenningssamgangna er öllum ljós og var staðfest í skýrslu um borgarlínu sem sýndi fram á um 25,5 milljarða kr. samfélagsábata af fyrstu lotu uppbyggingar borgarlínunnar. Þjónusta á borð við almenningssamgöngur þarf ekki að standa undir eigin kostnaði til að verða arðbær en hún þarf að vera notuð af nógu mörgum til þess. Það er arðbært að draga úr mengun frá umferð, það er arðbært að stytta þann tíma sem fer í ferðalög milli heimilis og vinnu og það er arðbært að tryggja fólki sem tekur þátt í skemmtanalífinu örugga og áreiðanlega för heim til sín og kemur vonandi í veg fyrir að sumt fólk freistist til að keyra undir áhrifum, sérstaklega nú um stundir þegar bið eftir leigubílum virðist vera mæld í klukkustundum. Hver yrðu eiginlega áhrifin á morgunumferðina ef allir notendur strætó væru á eigin bíl? Hver eru rök fyrir því að fella niður næturstrætó þegar 3.000 farþegar nýttu sér þjónustuna í júlí og ágúst? Ég hvet hæstv. ráðherra samgöngumála til að veita almenningssamgöngum stuðning í samræmi við mikilvægi þjónustunnar.