Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

326. mál
[16:46]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Ég tel nú að þetta sé um margt áhugavert frumvarp og ég hef nú bara eina mínútu til að spyrja hæstv. ráðherra. Það segir í frumvarpinu á bls. 5, 1. punktur „Að lágmark eigna lífeyrissjóðs í innlendum gjaldmiðli lækki úr 50% í 35% í nokkrum skrefum.“ En síðan segir í 3. punktinum: „Að lífeyrissjóðum verði gert að eiga eignir í innlendum gjaldmiðli sem jafngilda væntum lífeyrisgreiðslum sameignarhluta næstu þriggja ára.“ Hvort er það? Ég hef ekki nægilega mikla þekkingu á þessu. Hvort er það? Annaðhvort þrjú ár eða þessi 355%?

Síðan finnst mér vera gert rosalega mikið úr gjaldeyrisáhættunni í þessu frumvarpi. Mér finnst vanta umfjöllun um þá áhættu að hafa þetta eingöngu innan lands, að við séum í þessu pínulitla hagkerfi með þessa risasjóði. Ég veit að það er stórkostlegur munur á þessu, en ég vil bara benda á hvað norski olíusjóðurinn heitir raunverulega, hann heitir „The Government Pension Fund Global“. Ég veit að hann er út af auðlind (Forseti hringir.) en ég hef svolítið litið á lífeyrissjóðina sem svipaðan sjóð að vissu leyti. (Forseti hringir.) Hefði ekki verið nær að fjalla aðeins um dreifinguna erlendis? Og í hvaða gjaldmiðlum (Forseti hringir.) og að stýra áhættunni þegar fjárfest er erlendis, í ESB, Bandaríkjunum eða Asíu o.s.frv.?