Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 20. fundur,  19. okt. 2022.

staðfesting ríkisreiknings 2021.

327. mál
[18:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í mínum huga einn af kostunum við lög um opinber fjármál að við verðum að þvinga okkur til að horfa yfir hið opinbera í heild, þar með talið hlutafélög ríkisins sem við, til skamms tíma, vorum ekkert að velta fyrir okkur hvaða hlutdeild áttu í heildarfjárfestingu hins opinbera. En við erum orðin betri í þessu núna. Í því samhengi nefni ég sem dæmi mjög miklar fjárfestingar sem Isavia er að ráðast í eftir að við jukum hlutafé þar um 20 milljarða.

Spurt er hvort við séum tilbúin til að skoða þetta í samhengi við sveitarfélögin og svarið við því er: Já, að sjálfsögðu. Það skiptir verulega miklu máli að fjárfesting hjá sveitarfélögunum falli ekki niður vegna rekstrarþrenginga, það væri alvarlegt mál. Það er einmitt hugmyndin með samtalinu við sveitarfélögin sem er skrifað um í lögum um opinber fjármál að við horfum líka sameiginlega yfir rekstrarþættina af fjárfestingunni. En ég er mjög hugsi yfir því hvað við erum í raun og veru að standa okkur illa í áætlanagerð og mati á því hvað sé raunhæft að við getum framkvæmt mikið á hverju ári. Eitt af því sem við ættum að læra af þessum undanförnum árum er að það er eitt að vera mjög bjartsýnn og ákveðinn hér í þingsal og tryggja háa fjárheimild, (Forseti hringir.) en síðan er kannski allt annað þegar kemur að því að nýta þessar heimildir og koma þeim í verkefni og til framkvæmda. Það gengur allt of illa.