153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[10:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé ekkert sérstaklega uppörvandi fyrir sveitarfélögin að hlusta á tóninn í hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kannski vefengir að það vanti svona mikið inn. Það er auðvitað bara rétt að árétta það að þegar ríkið áætlaði þennan kostnað á sínum tíma var það undir forystu Bjarna Benediktssonar, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra í fjármálaráðuneytinu. Reykjavík benti á þeim tíma á stórkostlegt vanmat á kostnaðaráætlunum fjármálaráðuneytisins. En það má líka benda á að síðan þessi yfirfærsla átti sér stað hefur Alþingi margoft verið að breyta lögum sem hefur beinlínis gert málaflokkinn dýrari, m.a. varðandi búsetuúrræði sem ráðherra kom inn á.

Ég spyr: Geta sveitarfélögin haldið áfram sinni fjárhagsáætlanagerð án þess að eiga von á því að það komi inn aukinn peningur í seinni umferð fjárlaga sem réttir þeirra hlut?