Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

almannatryggingar.

54. mál
[11:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðjast forláts á að kunna mig ekki almennilega í pontunni. Ég er enn þá að læra. En mig langar að byrja á því, virðulegi forseti, að þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Mig langar að nefna að í gær sátum við hv. þingmaður fund í velferðarnefnd þar sem verið var að kynna fyrir okkur vinnu stýrihóps um endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem snýr að kjörum öryrkja. Þar nefndi ég í fyrirspurn til formanns þessa stýrihóps að fólk væri að gera sér væntingar um afkomubata í gegnum þessa vinnu stýrihópsins af því að við erum búin að hlusta á það sýknt og heilagt hér í þinginu að ekkert sé verið að gera í málunum af því að alltaf er verið að bíða eftir því að þessi endurskoðun eigi sér stað. Maður veltir því þá fyrir sér: Getum við í raun og veru gert okkur einhverjar væntingar? Er eitthvert sérstakt tilefni til að ætla að sú ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið ætli sér að fara að setja einhverja aukapeninga inn í þennan hluta velferðarkerfisins eftir eitt ár eða tvö ár frekar en bara núna? Reynslan segir okkur að það er endalaust verið að knésetja ákveðna hópa og taka í raun og veru af þeim það sem þeim ber út úr grunnkerfum okkar. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér einhverjar væntingar um afkomubata vegna þessarar endurskoðunar?