Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er á sömu nótum og hv. þm. Teitur Björn Einarsson, þessi tillaga lítur vel út svona þegar maður byrjar að lesa hana. Hér er sérfræðingum falið að vinna úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni fjölþjóðlegri samvinnu. En svo þegar maður les lengra þá kemur fljótlega í ljós að þetta snýst um það að horfa til Evrópusambandsins og kemur fram að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að okkur sé best borgið innan Evrópusambandsins. Að því leytinu til er ég sammála hv. þm. Teiti Birni Einarssyni að það er mikill Evrópusambandsbragur á þessari tillögu sem er kannski verið að reyna að færa í aðeins fegurri búning. Hv. þingmaður var svo sem ekkert að fela það hér að hans skoðun er sú að stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið sé að ganga í Evrópusambandið. Ég er reyndar ekki sammála þeirri fullyrðingu. En það sem ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins út í er það sem hann talar um og var komið aðeins inn á hér áðan, að samvinna Bandaríkjanna við bandamenn byggist í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum. Ef hv. þingmaður gæti kannski skýrt þetta nánar út og kannski nefnt einhver dæmi í því sambandi. Við höfum mjög mikla hagsmuni af okkar varnarsamstarfi við Bandaríkin og nú t.d. höfum við séð að það er kafbátaleitarsveit á Keflavíkurflugvelli á vegum Bandaríkjahers sem leitar að kafbátum hér við Íslandsstrendur. Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að einmitt þessu eftirliti sé sinnt. Við höfum dæmi úr Eystrasaltinu þar sem er búið að valda verulegum skemmdum á gasleiðslum (Forseti hringir.) og við eigum afar mikilvæga fjarskiptakapla í sjónum við ströndina. Gæti hv. þingmaður (Forseti hringir.) komið aðeins nánar inn á það hvað hann á við með því að þetta sé einhliða af hálfu Bandaríkjanna?