Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:16]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið við minni spurningu. Mig langar að nefna annan punkt í þessu. Ég tek það reyndar fram að ég hlakka til, ef þetta mál verður tekið á dagskrá allsherjar- og menntamálanefndar, að takast á við það þar. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er ég mjög áfram um að það eigi að vera hægt að flytja störf út á land ef það þjónar góðum og göfugum tilgangi og flutningurinn er heppilegur út frá margvíslegum sjónarmiðum.

Nú er auðvitað stutt á milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins. Það má alveg ætla að flestir starfsmenn Útlendingastofnunar búi hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem segir að þeir myndu flytja með stofnuninni út á land og kannski ekkert heldur sem segir að þess þyrfti eða að það væri æskilegt. Mig langaði kannski að fá hugleiðingar þingmannsins um það. Ætli það sé líklegt þegar svona stutt er á milli að starfsmenn flytji með stofnuninni og skiptir það yfir höfuð máli í þessari umræðu þegar við erum að tala um svæði sem er svona stutt frá höfuðborgarsvæðinu?