Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:30]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að færsla ríkisstofnunar muni alltaf að einhverju leyti hafa áhrif. Ég er nokkuð viss um það. Hvort það muni hafa teljandi áhrif á síðan eftir að koma í ljós og fer auðvitað eftir stærð og umsvifum viðkomandi stofnunar á svæðinu. Það er það sem ég benti m.a. á. Ástæðan fyrir því að ég nefndi hér Landhelgisgæsluna er að sú umræða er búin að eiga sér stað í mörg ár. Mig minnir að slíkt hafi verið lagt fram á þingi fyrir eflaust, leyfi ég mér að segja, 20 árum síðan. Þá var horft á mun fleiri þætti en bara menntunarstig. Það var verið að horfa á nýtingu innviða, það var verið að horfa á uppbyggingu, það var verið að horfa á samlegðaráhrif og svo má lengi telja. Eflaust þarf einnig að vinna þetta allt með starfsmönnum og stjórnendum viðkomandi stofnunar og því ráðuneyti sem hún heyrir undir hverju sinni.

Varðandi atvinnuleysið er það alveg rétt sem hefur komið fram hjá hv. þingmanni að samsetning vinnumarkaðar á Suðurnesjum hefur verið einsleit og það er nauðsynlegt að reyna að gera atvinnustigið þannig að það sé fjölbreyttara. Ég er algerlega þar. Þar myndi ég miklu frekar vilja leggja meiri áherslu á að hafa menntun í héraði, háskólamenntun í héraði, til þess að reyna að laða fólk að og einnig fyrir heimamenn sjálfa, til að þeir geti nýtt sína krafta á svæðinu þegar þeir ljúka námi. Ég læt þetta duga í bili.