Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég og Silja Dögg Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður, fluttum margar þingsályktunartillögur um að flytja Landhelgisgæsluna suður eftir. Ýmist var ég eða hún 1. flutningsmaður, en oftast hún. Það sem gerðist í framhaldi var að sú starfsemi, sem hentar mjög vel frá Gæslunni séð að fari suður eftir, er að koma þangað og er komin, þar á meðal þessi starfsemi við höfnina sem hér er minnst á og vel hefur verið unnið að, bæði af bænum og öðrum, og er frábær fyrirmynd að því hvernig sveitarfélög, ríki og stofnun eiga að vinna saman. Það er löngu vitað hversu mikil starfsemi er uppi á Keflavíkurflugvelli, Landhelgisgæslan er þar og eru auðvitað tugir — ég var þar í heimsókn síðast í gærmorgun — sem líta eftir starfseminni. Ég er því algerlega sammála að við eigum að halda áfram á þeim vettvangi.

En ég held líka að flugsækin starfsemi, hvort sem hún er vel eða illa þokkuð, eigi auðvitað að vera þar sem flugið er. Það er lykillinn að því sem við erum að tala um, að flugsækin starfsemi á heima í svokallaðri flugborg sem við ætlum að reisa í kringum Keflavíkurflugvöll og er stærsta atvinnutækifæri framtíðarinnar á Íslandi myndi ég halda. Ég held að þótt málaflokkarnir séu erfiðir þá sé það ekki þannig að sú starfsemi hafi á sér vonda ímynd. Það eru erfiðleikar fyrir margar stofnanir en suma þeirra getum við lagað með því að veita þeim meira fé. Ég held að ef stofnun bætist við suður eftir þá kosti það ekki að aðrar fái minna fé. Það er undir okkur komið. (Forseti hringir.) Það er áskorun fyrir okkur öll að standa betur að því að fjármagna rekstur ríkisins.