Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:16]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Öll getum við átt á hættu að veikjast einhvern tíma á lífsleiðinni. Alvarleg veikindi koma fólki oftast algerlega í opna skjöldu. Á einu augnabliki umturnast líf fólks og það er ekki óalgengt að samhliða sæti áherslur, lífsskoðanir og framtíðarsýn fólks endurskoðun. Að ná bata er vegferð sem krefst fullrar athygli fólks. Það skiptir ofboðslega miklu máli að þegar við veikjumst höfum við fullt svigrúm til að setja alla okkar orku og tíma í að hlúa að okkur sjálfum og ástvinum okkar og ná bata. En þegar við veikjumst erum við sett í ákveðna stöðu innan samfélagsins, stöðu sjúklings. Þessi staða getur verið miserfið fyrir fólk, því eðlilega er fólk með misgott bakland, misgóða þekkingu á réttindum sínum og hvernig þjónustukerfin okkar virka, og þjónustukerfin okkar eru oft mjög flókin.

Alls konar ágreiningur getur sprottið upp innan heilbrigðiskerfisins sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. En það sem er hins vegar óeðlilegt er að sjúklingar eigi sér engan málsvara þegar ágreiningur kemur upp. Sjúklingar geta vissulega beint kvörtunum til embættis landlæknis ef þeir telja að á sér hafi verið brotið, en landlæknir er hlutlaus úrskurðaraðili og í slíkum málum þurfa sjúklingarnir sjálfir að leita aðstoðar lögfræðinga sem getur verið mjög kostnaðarsamt og tímafrekt. Málsmeðferðin er einnig þung í vöfum, tekur langan tíma og landlæknisembættið hefur ótal mörgum öðrum verkefnum að sinna.

Við sem flytjum þessa tillögu teljum að réttindagæslu sjúklinga verði best sinnt með því að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem gætir hagsmuna þeirra. Það má alltaf búast við því að alls konar ágreiningur geti sprottið upp innan heilbrigðiskerfisins sem er algerlega eðlilegt. En við viljum að þessir sjúklingar eigi sér málsvara innan kerfisins þannig að þeir séu ekki settir í þá stöðu að gæta sjálfir eigin hagsmuna. Afleiðing þess er að fjöldi fólks fær ekki nauðsynlegt rými til að einbeita sér að bata út af því að það þarf að berjast fyrir réttindum sínum innan kerfisins sem það er á sama tíma háð til að ná bata. Það er vond staða að setja fólk í. Það er ekki góð staða að standa í ágreiningi við fólk sem maður er háður aðstoð við að ná bata.

Hugmyndin að því að stofna embætti umboðsmanns sjúklinga er ekki ný af nálinni en henni var fyrst haldið á lofti af mannréttinda- og neytendasamtökum á sjöunda áratug síðustu aldar. Markmiðið var að hlúa að þeim sem minna mættu sín og þyrftu sérstaka aðstoð í samskiptum sínum við heilbrigðisstofnanir. Kvennalistinn lagði fram tillögur um breytingar á þágildandi lögum um heilbrigðisþjónustu, um trúnaðarmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra. Frumvarp Kvennalistans gekk út á að koma á fót trúnaðarmannakerfi líkt og tíðkast á vinnustöðum, þ.e. að hver heilbrigðisstofnun hefði teymi trúnaðarmanna sem sjúklingar og aðstandendur gætu leitað til.

Þetta frumvarp fékk mjög jákvæða umfjöllun en náði samt ekki fram að ganga í þinglegri meðferð, því miður. Síðan lagði þingfólk Alþýðuflokksins fram þingsályktunartillögu á 120. löggjafarþingi um að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðningu umboðsmanna sjúklinga að öllum stærri sjúkrahúsum og í hverju heilsugæsluumdæmi sem myndu gæta hagsmuna og réttinda sjúklinga, sem m.a. byggðist á hugmynd Kvennalistans um trúnaðarmenn sjúklinga.

Hlutverk umboðsmanns sjúklinga samkvæmt þessari tillögu er að vera opinber talsmaður sjúklinga og vinna að því að veitendur heilbrigðisþjónustu taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra, að taka við kvörtunum, meta þær og aðstoða sjúklinga við að koma þeim á framfæri og að leysa samskiptavanda og deilumál. Umboðsmaður verður tengiliður sjúklings og aðstandenda hans við starfsfólk og stjórnendur heilbrigðisstofnana hvað varðar kvartanir um þjónustu og hugsanlega lögsókn. Umboðsmaður getur bæði tekið mál til meðferðar eftir kvörtun frá sjúklingi eða að eigin frumkvæði.

Umboðsmanni er líka ætlað að hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni sjúklinga. Hann á að miðla upplýsingum og veita þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra ásamt því að vera til aðstoðar og leiðbeiningar varðandi réttindi þeirra. Hann á að gefa markvisst út fræðandi og leiðbeinandi efni fyrir sjúklinga og aðstandendur og hann á að stuðla að bættum starfsháttum í heilbrigðisþjónustu þannig að sjúklingar upplifi minni streitu, skjótari bata og fái aðstoð frá fyrstu viðkomu innan heilbrigðiskerfisins og þar til meðferð lýkur.

Nú höfum við mjög góða reynslu af þeim embættum umboðsmanna sem til eru, eins og umboðsmanni barna og umboðsmanni Alþingis. Það segir sig sjálft að þegar við erum með hóp fólks sem er í erfiðum og viðkvæmum aðstæðum, er að kljást við veikindi og erfiða hluti, þá skiptir máli að hafa einhvern til aðstoðar, einhvern sem er talsmaður manns í mjög flóknu kerfi. Það eru ekkert allir sem hafa gott bakland sem getur aðstoðað í svona flóknum málum á tímum sem maður þarf að setja orku sína í að ná fullum bata en ekki að reyna að átta sig á flóknum kerfum, hver réttindi manns eru, hvernig maður eigi að beita sér, hvort meðferðin sé sú rétta og ef einhver ágreiningur kemur upp. Það er von þeirrar sem hér stendur að þetta mál gæti orðið til þess að bæta hag og réttindi fólks á meðan það er í þeim erfiðu aðstæðum að kljást við veikindi.