Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:23]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að vera fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu til þingsályktunar um umboðsmann sjúklinga og vil taka fram að þingflokkur Flokks fólksins stendur heils hugar að baki þessari tillögu, við erum meðflutningsmenn. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt. Það er smá sögulegt yfirlit í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar sem kemur fram að Kvennalistinn hafi lagt fram breytingartillögu á 112., 116., 117. löggjafarþingi á þágildandi lögum um heilbrigðisþjónustu, um trúnaðarmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra. Einnig hafi verið lögð fram þingsályktunartillaga af þingmönnum Alþýðuflokksins — eða þingfólki Alþýðuflokksins, til að hafa það rétt, eða þingmönnum Alþýðuflokksins, ég held að við séum alla vega menn öll saman — á 120. löggjafarþingi um að fela ríkisstjórninni að undirbúa ráðningu trúnaðarmanns umboðsmanna sjúklinga. Rakið er að breytingartillaga Kvennalista, frumvarpið, hafi fengið jákvæða umfjöllun en að ekkert hafi orðið úr eða málið ekki náð fram að ganga. Veit hv. þingmaður hver ástæðan fyrir þessu var? Hvernig stóð á því að frumvarpið náði ekki fram að ganga? Og einnig: Þekkir hv. þingmaður til slíkra embætta á hinum Norðurlöndunum, ríkjum sem við berum okkur saman við? Ég vil taka fram að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál. Ég sé líka að litið er á umboðsmann sem tengilið aðstandenda og starfsfólk og stjórnendur heilbrigðisstofnana líka og ég veit til þess að prestar hafa gegnt þessu hlutverki að vissu leyti. Hér er um mikið réttindamál að ræða og það væri mjög fróðlegt að vita ef hv. þingmaður gæti upplýst um örlög þessara mála á þinginu.